Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni, segir töluverða aukningu á notkun fylliefna í vörum, kinnbeinum og kjálkalínu þar sem áhrif samfélagsmiðla á fólk spila stórt hlutverk.

„Sérstaklega unga áhrifagjarna einstaklinga sem fylgja gjarnan áhrifavöldum sem sýna oft á tíðum ónáttúrulegar og filteraðar myndir,“ upplýsir Ragna. Þá geti það leitt til óeðlilegra krafa á eigin útlit þar sem fólk fær brenglaða mynd af því sem er eðlilegt.

Engin lög eða reglur um meðferðaraðila

Aðspurð segir Ragna og hún aðrir læknar á Húðlæknastöðunni hafi tekið eftir því að offyllingar í varir séu orðnar allt of algengar og segir þau hafa áhyggjur af þróuninni.

„Það er hlutverk meðferðaraðila að ráðleggja skjólstæðingum sínum um hvað muni koma best út og segja nei við meðferðum ef svo ber undir. Hins vegar eru engar reglur eða lög um hverjir megi veita meðferð með fylliefnum á Íslandi enn og þar af leiðandi hefur fjöldinn allur af snyrtistofum byrjað að bjóða uppá slíkar meðferðir,“ segir Ragna.

„Ófaglærðir meðferðaraðilar hafa margir hverjir ekki hag skjólstæðingsins að leiðarljósi heldur hugsa frekar um gróðann. Auk þess gera margir sér ekki grein fyrir því að þegar sett er mikið magn fylliefna í einu og endurtekið, á stuttu tímabili, eykst hættan á því að efnið fari að flæða út fyrir varalínuna og myndi syllu kringum varirnar eða safnist í slímhúð undir vörunum. Mikið magn efnis í vörum teygir húðina jafnframt út og jafnvel þótt efnið hverfi eða sé leyst upp verða varirnar ekki eins og fyrir fyllinguna,“ segir Ragna.

Fyrirmyndir með óeðlileg viðmið

Ragna segir húðlækna hafa áhyggjur af yngri kynslóðum sem alast við stöðugt vaxandi áreiti frá samfélagsmiðlum sem og mæðrum með óeðlileg viðmið um hvað sé eðlilegt í fegrunarinngripum.

„Húðlæknar eru meðvitað að reyna að fræða og hvetja til náttúrulegs útlits og við neitum meðferðum ef við teljum að meðferð leiði til óeðlilegs útlits,“ upplýsir hún.

Þá sé markmið meðferða húðlækna með fylliefnum að viðhalda og lagfæra með mottóinu, minna er meira, en ekki að breyta útliti fólks.

Fréttablaðið/Getty Images

Mikið magn efnis í vörum teygir húðina jafnframt út og jafnvel þótt efnið hverfi eða sé leyst upp verða varirnar ekki eins og fyrir fyllinguna

Gæðamunur fylliefna mikill

„Fylliefni í litlu magni á réttum stöðum í andlitinu leysast upp á eðlilegum tíma og geta jafnvel örvað aðeins framleiðslu á kollageni,“ segir Ragna um langtímaáhrif efnanna.

„Sem betur fer hefur verið mikil gróska í rannsóknum á fylliefnum síðastliðin ár og þær hafa sýnt okkur, með meðal annars á tölvusneiðmyndum, að efnin haldast mun lengur heldur en talið var í byrjun, og eru jafnvel enn til staðar mörgum árum og jafnvel áratug eftir að þeim var sprautað undir húðina,“ segir Ragna og tekur fram að það eigi sérstaklega við um fylliefni sem eru sett undir augu og í varir.

Að sögn Rögnu geta efnin farið að flæða á aðra staði í líkanum með tímanum sem á þó sérstaklega við ef of mikið magn er sett í einu eða ef fyllt er endurtekið á sama staðinn á stuttu tímabili.

Spurð segir Ragna að mikill munur sér á gæðum fylliefna sem eru á markaðnum. „Það er jafnvel verið að framleiða ólöglegar eftirmyndir af þekktum merkjum og selja undir fölsku flaggi.”

Ragna segir það mikilvægt að meðferðaraðilar noti viðurkennd efni sem eru vottuð og viti hvaðan þau koma: „Fylliefni eru einnig mismunandi að samsetningu og hýalúrónsýran í þeim mismikið krosstengd, en mikið krosstengd efni geta framkallað meiri bólgur,” segir Ragna en það getur einnig leitt til þess að það er miserfitt að leysa fylliefnin upp.

„Sumar tegundir er hreinlega erfiðara að leysa upp og hverfa jafnvel ekki alveg þrátt fyrir endurteknar uppleysingar. Þetta á sérstaklega við um ódýrari tegundir af fylliefnum,” segir Ragna en hún og aðrir læknar á Húðlæknastöðinni sinna beiðum um að leysa upp efnin vegna offyllingar og lagfæringar á því þegar efnið er farið að flæða út fyrir varirnar.

Fréttablaðið/Getty Images