Ó­hætt er að full­yrða að Daði og fé­lagar í Gagna­magninu hafi komið, séð og sigrað á fyrsta blaða­manna­fundinum í Rotter­dam, svo­kölluðum Hitt og heilsað, eða Meet and Greet hittingi hópsins með blaða­mönnum, að­dá­endum og bloggurum víðs­vegar að úr heiminum.

Bloggið er gríðar­lega vin­sæll vett­vangur og margar af stærstu fjöl­miðla­stjörnum Euro­vision koma úr blogg­heimum. Meðal annars Wiwi­bloggs, sem er ein stærsta Euro­vision að­dá­enda­síða heimsins og orð þeirra Willi­am og Deban metin mikils.

Þar sagðist hópurinn vera gríðar­lega sáttur með að vera loksins kominn í Euro­vision. „Þetta er í fjórða skiptið sem við komum fram sem hópur og höfum því á­kveðnar hug­myndir um það hvernig við viljum gera þetta,“ segir Daði um at­riðið.

Þá ræðir Daði fimm­tán sekúndna þögnina sem er í lok lagsins og er spurður sér­stak­lega út í hana. „Lagið er 2:45 mínútur og við höfum þrjár mínútur og vildum nota þær, það er á­stæðan,“ segir Daði hlæjandi.

Daði er jafn­framt spurður út í barn­æskuna í Dan­mörku, þar sem hann ólst upp. Hann segir sínar bestu minningar vera af því þegar hann lék sér með vinum sínum. „Ég lifði á stað þar sem bjuggu margir Ís­lendingar og Fær­eyjingar, flestir vinir mínir voru fær­eyskir,“ segir Daði.

Þá voru Daði og Árny spurð út í mögu­leg nöfn á nýjasta erfingjann. „Hvað segirðu um Láru?“ segir Árný við Daða undir hlátra­sköllum salsins. „Við ætlum að á­kveða þetta núna?!“ spyr Daði Árnýju sem svarar játandi. „Það mun heita Lára!“

Hægt er að horfa á fyrsta Hitt og heilsað fund Gagna­magnsins hér að neðan: