Freyja Haraldsdóttir, baráttukona fyrir réttindum fatlaðra og fyrrverandi varaþingmaður, snýr skýringum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, upp í grín á Twitter-síðu sinni í kvöld.

Uppruni hljóðs, sem talað hefur verið um sem eftirhermu sels, hefur verið til umfjöllunar en í upptökum af samræðum þingmannanna sex úr Miðflokki og Flokki fólksins á barnum Klaustur ber nafn Freyju á góma. Er hún þar nefnd „Freyja eyja“ og þá heyrist hljóðið umtalaða.

Sjá einnig: „Gat verið reið­hjól að bremsa“ en ekki sela­hljóð

Sigmundur sagði í kvöld að það væri ekki víst að hljóðið orsakaðist af því að stólar væru dregnir til, líkt og haldið hafði verið fram. Það væri þó fjarstæðukennt að verið væri að herma eftir sel.

„Ég er ekki að segja að þetta hafi verið stólar dregnir til. En þetta voru ein­hver um­hverfis­hljóð eins og menn taka eftir ef þeir hlýða á sam­talið. Það heldur bara á­fram og enginn fipast til eins og ein­hver hefði gert ef ein­hver hefði leyft sér að gera sela­hljóð eins og haldið var fram,“ sagði Sig­mundur og bætti við að þetta gæti þess vegna hafa verið „reið­hjól að ­bremsa fyrir utan gluggann“ á Klaustur bar. Hljóðið hafi verið talsvert hærra en í samtali þingmannanna.

Sjá einnig: Freyja: Karlar sem hringja í konur

Freyja sneri ummælunum upp í grín í kvöld og sagði að þetta hefði sennilega hvorki verið stóll né hjól.

„Þetta var ekki stóll. Þetta var ekki hjól. Þetta var örugglega hjólastóllinn minn að skransa fyrir utan Klaustur. #Klausturgate“