Leikverkið Blesugróf er eitt af atriðum Listahátíðar í ár. Það er óhefðbundið og samanstendur af þremur örleikritum eftir jafnmarga höfunda, þau Soffíu Bjarnadóttur, Kolfinnu Nikulásdóttur og Mikael Torfason. Efnið sprettur allt úr sama efniviði en með ólíkum hætti, að sögn Soffíu, sem er sú fyrsta sem ég heyri í til að forvitnast um viðburðinn. Verkið var frumsýnt í gær og í dag klukkan 18 er önnur sýning.

„Við höfundarnir erum ólíkir og vinnum sjálfstætt hver að sínu verki en svo eru listrænir stjórnendur sem móta heildarsýnina. Við skoðuðum hverfið saman og svo fór hver og einn í sitt innra líf.“

Blesugrófin liggur með fram mynni Elliðárdals og áður en Breiðholtsbrautin var lögð þar á milli einkenndist hverfið af smáhýsum sem byggð voru af vanefnum frumbyggjanna. Ekki kveðst Soffía hafa þekkt til í Blesugrófinni áður en hún byrjaði að semja örleikritið, heldur kafað í heimildir, einkum blöð og tímarit frá árunum 1960-1970. „Ég tengdi við hvað er horfið og annað sem situr eftir, þarna var pósthús og lítil lýsing en ég er ekki að fjalla um umhverfið sem slíkt heldur lífið og fer bara persónulega leið. Það eru þrír leikarar í mínu verki, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Hilmar Guðjónsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir.“

Soffía ítrekar að örleikritin séu hvert með sínu móti. „En þau tengjast óljósum böndum og flæða saman,“ tekur hún fram. „Hvert verk tekur um kortér í flutningi, svo er farið á milli þannig að í heild tekur gönguferðin um klukkustund.“

Á rætur í sömu stétt

Mikael bjó til hljóðverk um Blesugrófina sem spilað er í eyrum fólks. Þó hann hafi kynnst ýmsum aðstæðum í æsku, eins og bókin Týnd í Paradís vitnar um, átti hann aldrei heima í því hverfi.

„Mínar persónulegu tengingar við Blesugrófina eru þær að foreldrar mínir voru af sömu stétt og fólkið þar,“ segir hann. „Mamma ólst upp þar rétt hjá, í bæjarblokk við Bústaðaveg. Pabbi var skammt frá líka því fyrst eftir að föðuramma og -afi fluttu til borgarinnar bjuggu þau við hliðina á Blesugrófinni og unnu við hænsnarækt þar sem gömlu Fákshesthúsin eru, bláfátækt fólk sem endaði í 38 fermetra skúr rétt hjá Árbæjarsafninu.“

Þó Blesugrófin fengi á sig fátækrastimpil segir Mikael slík hverfi hafa verið víðar. „Húsnæðisvandinn var svo gríðarlegur eftir stríð. Fólk fann eða byggði sér einhverja kofa og breytti þeim í vistarverur með því að setja hænsnanet utan á þá og svo múr til að ekki læki mjög mikið. En þar var alltaf saggalykt.“

Mikael kveðst hafa verið svo heppinn að komast í ritgerð um Blesugrófina eftir Tryggva Emilsson, einn af hans uppáhaldshöfundum, því þangað hafi hann flutt þegar hann kom að norðan. „Þetta var íslenskt gettó. Við höfum tilhneigingu til að setja fólk út á guð og gaddinn og gleyma því, gerum það enn í dag við erlent verkafólk sem leigir fyrir of fjár í iðnaðarhúsnæði hjá einhverjum slömmlordum og borgum því skítalaun. Það væri hægt að gera góða útvarpsþætti um það.“

Verk Kolfinnu Nikulásdóttur er tvískipt og fjallar um flutninga að hennar sögn. „Verkefnið var fróðlegt en sjálf var ég dálítið týnd í byrjun því ég hafði enga tengingu við Blesugrófina. Svo kviknaði á einhverju hjá mér þegar ég áttaði mig á að borgaryfirvöld hefðu farið í átak þar við að flytja íbúana í burtu í blokkir. Mér fannst það svo mikið inngrip, því fólkið sem bjó í Blesugrófinni var frumbyggjar þar og hafði byggt sér hús úr engu. Málshátturinn „neyðin kennir naktri konu að spinna“ átti algerlega við. Ég fór að hugsa um orðið velferð og hvað fólki sé fyrir bestu.“

Leikritið er að hluta til hljóðverk að sögn Kolfinnu. „Fyrri hlutinn gerist í nýrri blokk, tvö systkini sem eru nýflutt þangað eru að tala saman. Strákurinn glaður en stelpan í sjokki og saknar gamla hússins. Seinni hlutinn gerist í bíl og andi þess er svipaður, maður ætlar að koma unnustu sinni ánægjulega á óvart en hún fær sjokk. Myndlíking um hvernig fólk upplifir áfall aftur og aftur.“