Ærumissir er ný bók eftir Davíð Loga Sigurðsson og á bókarkápunni er undirtitill: Jónas frá Hriflu ræðst til atlögu. Þar rekur höfundur atburði sem urðu þegar Einari M. Jónassyni sýslumanni í Barðastrandarsýslu var vikið úr embætti árið 1927 að frumkvæði Jónasar.

„Þetta er frásögn af dramatískum atburðum sem urðu þetta haust á Patreksfirði, en það má segja að afsetning þessa tiltekna sýslumanns hafi markað upphaf mikilla átaka sem Jónas frá Hriflu efndi til við embættismannastéttina í landinu,“ segir Davíð Logi sem fyrir jólin 2016 sendi frá sér bókina Ljósin á Dettifossi.

Risar í stjórnmálasögunni

„Ég velti því í upphafi fyrir mér hvort ég ætti að vinna úr efniviðnum sögulega skáldsögu,“ segir Davíð Logi aðspurður, „en komst að þeirri niðurstöðu að saga Einars sýslumanns, sem og aðkoma Jónasar frá Hriflu og ýmissa annarra manna sem síðar urðu mjög áhrifamiklir í íslensku samfélagi, stæði fyrir sínu án þess að ég væri eitthvað að reyna að betrumbæta hana. Ég leyfi mér hins vegar á stöku stað að setja mig í huga persónanna, til að skapa andrúmsloft og þegar mér fannst það hjálpa til við að gera frásögnina lifandi,“ segir Davíð Logi.

„Mál Einars sýslumanns var áberandi í blöðum þess tíma en svo má segja að það hafi fallið í gleymskunnar dá. Hið sama er ekki hægt að segja um Jónas frá Hriflu, þann umdeilda mann, eða ungu lögfræðingana sem hann sendi vestur fyrir sína hönd í tengslum við þetta mál.

Stefán Jóhann Stefánsson varð síðar formaður Alþýðuflokksins og bæði forsætis- og utanríkisráðherra og Hermann Jónasson, síðar forsætisráðherra, er auðvitað einn af risunum í stjórnmálasögu síðustu aldar. Báðir leika mikilvæg hlutverk í þessari bók.

Hermann Jónasson var gamall glímukóngur. Þegar ég fór að skoða frumheimildir í þessu máli vakti því óneitanlega athygli mína að svo virðist sem komið hafi til handalögmála milli hans og Einars sýslumanns þegar Hermann kom vestur til að beita fógetarétti til að setja Einar af. Það komst aldrei í hámæli á sínum tíma.“

Hrópandi í eyðimörk

Ærumissir gerist á fyrstu árum stéttastjórnmála á Íslandi. Fram til þessa höfðu öll stjórnmál markast af afstöðu manna til sjálfstæðismálsins.

Davíð Logi segir Einar sýslumann birtast sumpartinn sem fulltrúa gamla kerfisins, á meðan dómsmálaráðherrann nýi, Jónas frá Hriflu, hafi viljað gera byltingu. Gera breytingar svo um munaði, á íslensku samfélagi og í stjórnkerfinu. Margt af því sem Jónas hafi beitt sér fyrir sýni að hann var merkilegur stjórnmálamaður.

Annað sé til marks um að hann sást ekki alltaf fyrir. „Mig langaði til að gefa nasasjón af þeirri breiðu mynd í þessari bók, um leið og ég segði örlagasögu þessa einstaklings sem varð fyrir járnbrautarlestinni sem Jónas var.“

Spurður hvort verkið hafi kallað á mikla heimildavinnu segir Davíð Logi: „Fyrri hlutinn byggir einkum á tveimur frumheimildum sem ég komst snemma í og sá hluti bókarinnar skrifaði sig nánast sjálfur.

Seinni helmingurinn er sundurlausari að því leyti til að heimildirnar eru ekki eins heildstæðar. Einar M. Jónasson naut þegar frá leið ekki mikillar samúðar, fæstir töldu sig geta borið blak af sýslumanni sem neitaði að víkja, þegar ráðherra sagði honum að víkja.

En hann eyddi tíu árum í að reyna að endurheimta æruna og varð í þeirri baráttu sinni æ meir eins og hrópandinn í eyðimörkinni.“

Freki karlinn

Spurður hvort sagan af falli Einars sýslumanns minni á einhvern hátt á samtímann segir Davíð Logi: „Góð kona benti mér á það um daginn að sýslumaðurinn í þessu verki, sem neitar að víkja og gerir það á helst til vafasömum forsendum, sé alveg týpa sem sé til staðar enn í dag. 

Þessi „freki karl“ sem vill fá að eiga sitt og fara sínu fram í friði. Ég læt aðra um að benda á hvaða karlar hegða sér helst þannig í okkar samtíma, rétt eins og ég læt aðra um að finna hliðstæður í pólitík nútímans við stjórnmálamanninn Jónas frá Hriflu sem sannarlega kunni að láta menn finna fyrir sér, þegar svo bar undir.“