Við erum tvíefld í því að gera fyrstu jólin okkar að töfrandi upplifun,“ segir Hilmar Þór Harðarson, matreiðslumeistari og eigandi Krydds sem opnaði í Hafnarborg í sumarbyrjun.

Þar verður hlýlega tekið utan um fjölskyldur, vinahópa og vinnufélaga sem vilja gleðjast saman yfir gómsætum jólamat og í glaðlegu andrúmslofti þegar líður nær jólum.

„Við ætlum að færa jólamatinn beint á borðið til gesta okkar. Því þarf enginn að standa í röð við jólahlaðborðið heldur koma lostætir jólaforréttir á mitt borðið og hægt að njóta og smakka saman í góðra vina hópi,“ útskýrir Hilmar sem á forréttafötunum teflir fram síldarréttum, jólapaté, krydd-útfærslu af hangikjöti og andalæri í kleinuhring, svo fátt eitt sé upptalið.

„Aðalréttinn, sjálfa jólasteikina, velja gestir sér af hátíðarmatseðli hússins, og á eftir verða dýrindis eftirréttir bornir á borð gesta því það er svo indælt að njóta þess að sitja við svignandi borð ábætisrétta og gæða sér á gómsætu jólakonfekti, ris à l’amande, crème brûlée, jólafrómas, ís og búðingum,“ segir Hilmar, fullur tilhlökkunar enda svo margt nýtt og spennandi við útfærslur Krydds-kokkanna þegar kemur að jólamatseldinni, í bland við hefðbundinn og ómissandi íslenskan jólamat.

„Við leggjum okkur fram um að elda öðruvísi sælkeramat en gerum jólamat Íslendinga að sjálfsögðu hátt undir höfði. Ég hlakka mikið til enda fátt eins notalegt og að sitja saman á jólalegri stund, deila ljúffengum réttum, njóta dýrmætrar samveru og hlusta á jólatóna undir borðum,“ segir Hilmar um ómótstæðilegt aðdráttarafl Krydds í aðdraganda jóla.

Undursamlegt jólaævintýri

„Við ætlum að skreyta hátt og lágt og hafa það sem huggulegast í vetrardýrðinni. Við komum á óvart með jólarétti í óvæntum búningum og erum öflug í glitrandi og frískandi jólakokteilum,“ upplýsir Hilmar.

Hafnfirska söngkonan Guðrún Árný syngur undir borðum Krydds á aðventunni en hún er gestum veitingahússins að góðu kunn fyrir „sing along“-kvöld sín á Kryddi.

„Guðrún Árný mun flytja yndisleg jólalög með sinni alkunnu englarödd og hver veit nema hún gíri gesti upp í jólafjöldasöng ef stemningin er slík í húsinu,“ segir Hilmar á Kryddi sem hefur slegið í gegn hjá landsmönnum.

„Andrúmsloft Krydds er svolítið öðruvísi, létt, skemmtilegt og ekki of formlegt. Við áttum ekki von á að það yrði svona mikið að gera hjá okkur en við eigum marga fastakúnna alls staðar að af landinu. Húsið er svo undursamlegt ævintýri í sjálfu sér, staðsett mitt í hjarta Hafnarfjarðar, með stórum og fallegum gluggum og innviðum og þjónustu sem umvefur gestina.“

Jólahlaðborð Krydds verður á boðstólum síðustu tvær helgarnar í nóvember og fyrstu tvær helgarnar í desember. Sérstakur jólabröns verður í boði sömu fjórar helgar. Borðapantanir á kryddveitingahus.is, í síma 558 222 og á netfanginu krydd@kryddveitingahus.is