Stór nöfn á vídeólistarsviðinu eru á bak við sýninguna Ó, hve hljótt. Tónlist eins og við sjáum hana: myndlist og kvikmyndir – sem verður opnuð í Gerðarsafni í dag klukkan 16. Hún gefur glögga mynd af því hvernig samruni tónlistar og kvikmynda verður að list, þvert á miðla. Verkin eru hvert öðru ólík en öllum er þeim varpað á veggi. Þau eru annars vegar úr safneign CNAP, miðstöðvar myndlistar í Frakklandi, og hins vegar eftir þrjá af fremstu listamönnum Íslands í greininni, þau Doddu Maggý, Sigurð Guðjónsson og Steinu. Sýningin var fyrst sett upp í Verksmiðjunni á Hjalteyri síðasta sumar. Þó hún heiti Ó, hve hljótt, þá fylgja ómar og  hljómar mörgum vídeóverkanna, eins og fram kemur í undirtitlinum. 

Sigurður Guðjónsson á þarna eitt verk, það heitir Tape og er frá 2016. Listamaðurinn lýsir því svo á einfaldan hátt: „Það sem fólk horfir á er í raun nærmynd af segulbandsspólu sem er að spinna frá vinstri til hægri og henni fylgir hljóð, því það heyrist í spólunni þegar hún er að vefjast. Verkið er sett upp á vegg í miðju rýminu með skjávarpa og nýtur sín vel.“ Dodda Maggý gerir líka tilraun til að lýsa list sinni í orðum fyrir blaðamanni, en vissulega er sjón sögu ríkari. Hún kveðst fá hugmyndirnar úr öllum áttum og alls ekki allar úr raunveruleikanum, heldur fléttist dag- og næturdraumar inn í, jafnvel skynvilla og sýnir í skærum litum sem birtast henni í mígreniköstum. 

Verk hennar eru á mörkum kvikmyndagerðar, vídeólistar og hljóðlistar, enda er hún með háskólagráður bæði í myndlist og tónsmíðum. 

„Fólk heldur stundum að verkin mín séu tölvugerð, en því fer fjarri. Þau eru mjög mikið handgerð og geta tekið nokkur ár í framleiðslu því ég ligg yfir þeim og nostra.“ Ýmsar aðferðir kveðst Dodda Maggý nota við að koma hugmyndum sínum í form, meðal annars upptökur, hvort sem um er að ræða vídeó eða tónlist. „Stundum kvika ég myndefni, nota gamlar aðferðir frá upphafi kvikmyndamiðilsins sem ég færi svo yfir í stafrænt form, ramma fyrir ramma. Þó ég skilji vídeómiðilinn frekar vel tæknilega er ég alltaf í tilraunastarfsemi, pínu eins og vísindamaður á rannsóknarstofu,“ lýsir hún. 

Dodda Maggý er fædd í Keflavík og var í tónlistarnámi sem barn. Nú hefur hróður hennar sem myndlistarkonu borist til allra heimsálfa, því verk hennar hafa ratað á yfir hundrað sýningar um allan heim. Sýningarstjórar Ó, hve hljótt eru Gústav Geir Bollason frá Verksmiðjunni á Hjalteyri og Pascale Cass agnau frá CNAP.