Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir er einn af þeim afkastamiklu sjálfboðaliðum sem starfa fyrir Dagbjörg. Hún er einnig formaður og einn af stofnendum deildarinnar sem varð til árið 2004 og hefur það verkefni að vera bakhjarl Björgunarsveitarinnar Suðurnesja og sinna slysavörnum í Reykjanesbæ.

Glöggt er gests augað

Verkefni Dagbjargar í slysavörnum eru margvísleg. „Eitt helsta verkefnið hefur snúið að öryggi aldraðra. Frá árinu 2006 höfum við gert könnun á aðstæðum á heimilum eldra fólks. Þetta er átak sem heitir Glöggt er gests augað en markmið þess er að vekja fólk til umhugsunar um slysahættur á heimilum. Öldruðum er boðin heimsókn frá fulltrúum slysavarnadeildarinnar sem fara yfir gátlista um öryggismál og slysavarnir á heimilinu, en meðal annars er skoðuð aðkoma að heimilinu, baðherbergi og stigar,“ segir Kristbjörg.

Innt eftir því hvaða hættur sé helst að finna á heimilum aldraðra bendir hún á að algengustu slysin hjá eldri borgurum séu fallslys í svefnherbergjum eða setustofu. Eldra fólki sé hættara við að renna til í baði, renna til á lausum mottum eða detta um lausar snúrur.

„Við höfum oftast verið að heimsækja fólk sem er 78 ára til að kanna aðstæður á heimilum þess. Reyndar erum við að hugsa um að hækka þann aldur enda er eldra fólk á Reykjanesi ótrúlega hresst, sérstaklega þeir sem fylgja æfingaplani frá Janusi heilsueflingu sem hefur gert gæfumuninn,“ segir Kristbjörg.

Yfirleitt hefur verið sent bréf til eldra fólks um að sjálfboðaliðar Dagbjargar verði á ferðinni á vissum tíma og svo hefur verið bankað upp á. „Okkur er iðulega mjög vel tekið og þetta er afskaplega skemmtilegt verkefni. Oft fáum við kaffi og pönnukökur og sitjum svo og spjöllum um slysavarnir, öryggi og fleira sem fólkið hefur áhuga á. Einnig afhendum við gjafapakka sem í er næturljós, 112 merki til að líma á síma og annað gagnlegt,“ lýsir Kristbjörg.

Slysavarnir barna

Annað mikilvægt verkefni sem Dagbjörg sinnir í góðu samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja snýr að öryggi barna. „Á hverju ári gefum við hverju barni sem kemur í ungbarnaeftirlit hjá HSS, um 340 talsins, pakka með gátlista um öryggi barna á heimilum og svokölluðum fingravinum sem settir eru á hurðir svo þær skelli ekki á litlum puttum,“ segir Kristbjörg en samstarfið hefur gefist mjög vel. „Þá ræða starfsmenn ungbarnaeftirlitsins einnig við foreldra um slysahættur þegar þeir koma með börnin sín í sex mánaða skoðun.“

Dagbjörg sinnir fjölmörgum öðrum verkefnum sem snúa að slysavörnum. „Við erum með puttana í ýmsu. Skoðum hjálmanotkun og fylgjumst með öryggi í nærumhverfinu, eins og á bryggjum, gangstígum, leikvöllum og ferðamannastöðum. Gefum einnig endurskinsmerki og -vesti til skóla og leikskóla. Á tveggja ára fresti gerum við könnun á öryggi barna í bílum. Við bíðum við leikskóla og athugum hvort fólk er með löglegan öryggisbúnað í bílum sínum.“ Kristbjörg segir góða vísu aldrei of oft kveðna. Vel hafi tekist að auka öryggi barna í bílum en betur megi ef duga skuli líkt og nýleg könnun lögreglunnar á Suðurnesjum á bílstólanotkun sýndi fram á. „Það er mikilvægt að hamra áfram á þessum þáttum.“

Greinin birtist fyrst í sérblaði um Neyðarlínuna 112, 11. febrúar 2019.