Kristlín Dís Ingilínardóttir
Miðvikudagur 16. desember 2020
21.30 GMT

Eflaust dreymir ófáa um að eignast einbýlishús á Íslandi en það er þó ekki gengið að því að verða sér úti um slíkt, enda kostar það skildinginn.

Það þarf þó ekki að vera dýrara að fjárfesta í einbýlishúsi en í kjallaraíbúð í Vesturbænum ef vel er leitað. Fréttablaðið tók saman ódýrustu einbýlishúsin sem eru á markaðnum um þessar mundir.

Langanesvegur 31

Húsið er í skemmtilegum stíl.
Mynd/Fasteignaljósmyndun.is

Þetta tæplega þrjú hundruð fermetra hús sem stendur á góðum útsýnisstað á Þórshöfn er falt fyrir tíu milljónir króna. Í húsinu eru níu herbergi og vægast sagt dásamlegt útsýni úr stofunni.

Fasteignamat eignarinnar eru tæpar 19 milljónir og er brunabótamat húrrandi 82 milljónir. Ástæða þess að eignin er sett á svo lágt verð er að hún þarfnast gagngerra endurbóta og er áhugasömum sérstaklega bent á að kynna sér ástand eignarinnar rækilega í fylgd sérfræðinga.

Útsýni yfir sjóinn sakar engann. Mynd/Fasteignaljósmyndun.is
Upprunalegt eldhús vekur eflaust upp fortíðarþrá í einhverjum. Mynd/Fasteignaljósmyndun.is
Retró baðherbergi þarfnast smá viðhalds. Mynd/Fasteignaljósmyndun.is
Það þarf ekki sérfræðing til að sjá möguleikana í þessari stofu. Mynd/Fasteignaljósmyndun.is

Skólavegur 62

Fimm herbergja hús á Skólavegi fæst á 15 milljónir.

Á Skólavegi 62 í Fáskrúðsfirði er að finna vel staðsett einbýlishús á tveimur hæðum. Húsið er 187 fermetrar að stærð og er sett verð 15 milljónir króna.

Neðri hæðin er steypt og efri hæðin er úr timbri, klædd með bárujárni. Á efri hæð er fjögurra herbergja íbúð með rúmgóðri stofu. Á neðri hæð er sér inngangur en einnig er stigi á milli hæða sem lokaður er í dag og því tvær aðskildar íbúðir í húsinu. Mögulegt er að hafa sér íbúð á neðri hæð.

Á neðri hæðinni er nýuppgerð íbúð.
Ævintýralega bleikt herbergi mun án efa gleðja einhverja fjölskyldumeðlimi.

Mýrarholt 3

Settar eru níu milljónir á þetta einbýlishús.
Mynd/Valhöll

Einbýlishús á Ólafsvík, nánar til tekið á Mýrarholti 3, er eitt það ódýrasta sem er í boði um þessar mundir og er sett á það níu milljónir króna. Um er að ræða tæplega hundrað fermetra hús með garði og bílskúr í miðbæ Ólafsvíkur.

Aðalbraut 49

Aðalbraut er mikið endurnýjað hús.

Aðalbraut 49 er staðsett á Raufarhöfn og er 139 fermetra, fimm herbergja einbýlishús. Uppsett verð eru tólf og hálf milljón en búið er að endurnýja húsið að stórum hluta.

Nýlega var byggt 15 fermetra gróðurhús/sólhýsi við suðurhlið hússins sem og vel byggður 15 fermetra einangraður geymsluskúr við norðurhliðina. Stór sólpallur er að baki hússins sem snýr til vesturs. Grænmetis garður er síðan staðsettur við suðurhlið og svo er skemmtilegt eldstæði fyrir ofan húsið. Ljóst er að komandi eigendur geta átt margar góðar stundir úti í garðinum.

Hér má sjá hvernig nostrað hefur verið við bakgarðinn.

Ásgata

Lítið og snoturt einbýlishús á Raufarhöfn. Mynd/Fasteignaljósmyndun.is

Þetta litla einbýlishús stendur við Ásgötu í Raufarhöfn og kostar tíu milljónir. Um er að ræða 121 fermetra hús með þremur herbergjum. Kjallari er undir helmingi hæðarinnar þar sem er þvottahús og geymsla. Í raun er gengið inn í húsið á milli hæða, þ.e. stigið inn í lítið anddyri með stuttum stiga upp á hæðina og svo á hægri hönd er stigi niður í kjallarann. Hæðin er hlaðin úr holstein á steyptum kjallara.

Húsið er staðsett á gróðursælum reit.
Fallegur horngluggi er í öðru svefnherberginu.

Strandgata 5

Ódýrasta einbýlishús markaðsins um þessar mundir.

Ódýrasta einbýlishúsið á markaðnum á þessari stundu er steinhús frá árinu 1914. Húsið er tæplega hundrað fermetrar og stendur við Strandgötu í Eskifirð og kostar átta og hálfa milljón.

Um er að ræða 95 fermetra gott steinhús á tveimur hæðum. Á hæðinni eru forstofa, salerni, eldhús, búr og tvær stofur. Í risi eru þrjú svefnherbergi, eitt þeirra mjög lítið og í kjallara er þvottahús og geymslurými. Nánast engar myndir eru til af eigninni en húsinu fylgir þúsund fermetra eignarlóð.  

Svo virðist sem síðasta mynd sem var tekin í húsinu sé frá árinu 2012.

Brekastígur 16

Hægt er að eignast Brekastíg fyrir 15 milljónir.

Á Brekastíg í Vestmannaeyjum er að finna fallegt þriggja herbergja hús sem kostar 15 milljónir. Um er að ræða einbýlishús, sem skiptist í kjallara, hæð og ris auk bílskúrs á lóð og er það alls 167 fermetrar. Húsið er hlaðið á steyptum kjallara, hæð og ris klætt með liggjandi álklæðningu., timburgólf á milli hæða. Húsið er byggt árið 1925 og bílskúrinn árið 1980.

Bakhúsið er frá árinu 1980.
Búið er að opna milli tveggja stofa.
Það er nóg af möguleikum í íbúðinni.
Athugasemdir