Þóra Guðný Jónsdóttir er einstæð þriggja barna móðir sem vinnur sem tanntæknir og stundar útivist af miklum krafti. Henni dugar ekki ein tegund af útivist, heldur er hún öflug í fjallgöngum, sjósundi og „acro“ jóga. Hún segir að náttúran sé besti og um leið ódýrasti sálfræðingur sem til er og að í faðmi hennar geti hún bæði notið þess að vera með öðrum og sjálfri sér.

„Útivist spilar rosa stórt hlutverk í lífi mínu og ég hef mikla ástríðu fyrir henni,“ segir Þóra og bætir við að áhuginn hafi einfaldlega vaknað vegna þess að hún fann að hún fékk mikið út úr því að vera í náttúrunni.

Þóru líður best úti í guðsgrænni náttúrunni og segir að hún gefi sér mikla orku. Hún segir að útivist sé frábær bæði andlega, líkamlega og félagslega.

„Ég byrjaði að labba mikið með vinum mínum í gönguhópnum Vesen og vergangur, og það kom mér í gang,“ segir Þóra. „Ég er búin að kynnast fullt af fólki þar og eignast vini, og svo uppgötvar maður sameiginleg áhugamál með þessu fólki og fer að eyða tíma með því og þá leiðist maður út í nýja hluti. Þannig myndast samfélag í kringum útivistina.“

Bjargaði henni í skilnaði

„Náttúran og útivist er besti og ódýrasti sálfræðingur sem þú getur fundið. Ég stunda sjósund og ef mér líður eitthvað illa þá er nóg að fara í sjóinn og synda um í smá stund. Maður labbar aldrei upp úr fúll,“ segir Þóra. „Það er eins með fjallgöngu, maður fær orku úr náttúrunni og getur líka notað þetta sem hugleiðslu til að vinna sig í gegnum eitthvað sem hrjáir mann og þess háttar.

Þegar ég gekk í gegnum skilnað hjálpaði þetta til dæmis mikið með andlegu hliðina og bjargaði mér alveg. Maður getur leyft öllum tilfinningunum að flæða þegar maður er uppi á fjalli og svo skilið það eftir þar þegar maður kemur niður. Ég bjó bara svolítið í náttúrunni á þessu tímabili,“ segir Þóra.

Þóra er alvöru íslenskt hörkutól sem lætur smá kulda ekki trufla sig.

Hún segir að það fari eftir skapinu hvort henni finnist betra að vera ein eða í hópi. „Ég hef mjög gaman af því að vera í kringum fólk, en mér finnst líka gott að fara ein þegar ég finn að ég þarf að hreyfa mig, fá útrás eða vinna mig í gegnum eitthvað,“ segir hún. „Mér finnst betra að gera það á hreyfingu en sitjandi á rassinum.“

Ásamt sjósundi og fjallgöngum stundar hún líka „acro“ jóga. „Það er pínu erfitt að útskýra það, en það snýst um að gera æfingar út frá því að lyfta fólki. Annað hvort ertu grunnurinn eða sá sem „flýgur“ og grunnurinn getur jafnvel lyft meira en einni manneskju í einu,“ segir hún. „Svo eru gerðar æfingar á lofti. Við stöndum á öxlunum á hvort öðru og svona, pínu eins og í sirkus. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt.“

Vil frekar mistök en lifa ekki

Ástæðan fyrir því að Þóra stundar fleiri en eina tegund af útivist, er sú að henni finnst gaman að ögra sér.

„Oft eru fyrstu viðbrögðin við einhverju nýju og óþekktu bara hræðsla og að segja nei, en ég tók meðvitaða ákvörðun fyrir nokkrum árum um að láta nei-ið ekki stoppa mig og hugsa frekar „af hverju ekki?“. Það varð til dæmis til þess að ég byrjaði í sjósundi,“ segir hún. „Vinir mínir úr hlaupa- og gönguhóp voru í því og ég vildi náttúrulega ekki missa af partíinu þannig að ég fór með. En ég fór strax aftur upp úr og hugsaði bara „nei, þetta er algjör geðveiki, ég geri þetta aldrei aftur!“ Svo mætti ég aftur nokkrum dögum seinna og hef ekki farið úr sjónum síðan. Það var saman sagan með „acro“ jóga. Það er ekki langt síðan ég byrjaði, en þegar mér var bent á þetta námskeið ákvað ég bara að segja já og skráði mig og hef svo ekki hætt.

Fjallgöngur með gönguhópnum Vesen og vergangur komu Þóru af stað. Hún hefur eignast marga vini í hópnum og þeir hafa leitt hana á vit nýrra ævintýra.

Maður verður að vera opinn fyrir nýjum upplifunum. Ég vil frekar hlaupa á veggi og gera mistök í lífinu en að hafa ekki lifað,“ segir Þóra. „Ef ég dett niður dauð á morgun vil ég geta litið til baka og sagt „ég lifði“. Það er svo mikið af fólki sem er að bíða eftir rétta augnablikinu til að byrja að lifa og hafa gaman. En augnablikið kemur kannski aldrei. Það er undir okkur komið að búa til rétta augnablikið og vera tilbúin til að nýta það.“

Hver er þessi geggjaða kona?

Þóra segist vera ánægðust úti í guðsgrænni náttúrunni. „Uppi á fjalli eða eitthvað svoleiðis. Ég syndi líka í fossum, ám og vötnum, ekki bara sjó, bara svo lengi sem ég get hoppað út í. Ef ég get blandað saman fjallgöngu og að fara í vatn er það toppurinn og ég gerði það einmitt fyrir nokkrum dögum,“ segir hún. „Við gengum upp að Tröllafossi yfir Þríhnjúka og Haukafjöll og þegar við komum á bílastæðið var á þar svo ég reif mig úr og henti mér í hana. Ég var sú eina í 42 manna hópi og hinir stóðu hjá og vissu ekki hvaða geggjaða kona þetta væri.“

Þóra segir að íslensk náttúra sé stórkostleg og það sé svo mikið úrval af fallegum stöðum að það sé ómögulegt að gera upp á milli þeirra. „En ég er samt alltaf rosa hrifin af Trölladyngju og Grænudyngju og svo er klassískt að fara á Helgafell í Hafnarfirði,“ segir hún. „En möguleikarnir eru óendanlegir.“

Þóru leist ekkert á sjósund þegar hún prófaði það fyrst en stundar það nú af krafti. Hún segir að það sé ómögulegt að koma fúl upp úr sjónum.