Ég er staddur í fæðingarorlofi og hef þar af leiðandi ekki fylgst jafnmikið með fréttum og venjulega, en ein frétt sem fangaði athygli mína var að Úkraínumenn væru búnir að semja lag um tyrkneska drónann Bayraktar. Dróninn er framleiddur af einkafyrirtæki sem er í eigu tengdasonar Erdogan Tyrklandsforseta. Tengslin við Rússa gera þetta að ansi furðulegum ástarþríhyrningi!

Það er ekki skrítið að Úkraínumenn séu ánægðir með drónann, enda hefur hann tekið út heilan haug af rússneskum skriðdrekum. Það fyrsta sem ég hugsaði þó þegar ég sá fréttina var blætið sem sveitir Mujahideen höfðu fyrir Stinger-eldflaugavörpunni á 9. áratugnum og notuðu til að skjóta niður þyrlur og það mynduðust hálfgerð trúarbrögð í kringum vopnið.

Ef þetta heldur áfram eru kenningar sem benda til að Úkraína gæti orðið að einhvers konar hliðstæðu við Afganistan þar sem jarðvegurinn er frjór fyrir öfgahægri hópa til að spretta upp. Þetta er kokteill og öll hráefnin eru til staðar til að geta búið til þessar aðstæður.