Í ljóða­bókinni Menn sem elska menn sam­tvinnar Haukur Ingvars­son sína eigin 21. aldar hugar­ver­öld við hug­mynda­heim Fjölnis­manna á 19. öld um karl­mennsku og vin­áttu. Haukur segir bókina eiga sér langan að­draganda og um­fjöllunar­efni hennar hafi flögrað um í huga hans lengi.

„Þessi titill, Menn sem elska menn, kom þegar ég var að skoða myndir af Pútín þar sem hann var að veltast með höfrungum og sýna ofur­karl­mennsku á sama tíma og verið var að herða lög um sam­kyn­hneigða og hund­elta þá í þessum fyrrum austan­tjalds­löndum. Þá fór ég að velta fyrir mér þessari þver­sögn karl­mennskunnar að stjórna því hvernig við elskum. Þessi frasi „Karlar sem hata konur“ varð mjög fleygur og fór víða og þá fór ég mikið að velta fyrir mér hvernig karl­menn elska, bæði á já­kvæðum og nei­kvæðum nótum.“

Doktors­rit­gerð Hauks í ís­lenskum bók­menntum, Full­trúi þess besta í banda­rískri menningu, fjallar um á­hrif banda­ríska Nóbels­skáldsins Willi­ams Faul­kner á ís­lenskt menningar­líf og kemur út hjá Sögu­fé­laginu í haust. Haukur hefur einnig skrifað fræði­bók um síðustu skáld­sögur Hall­dórs Lax­ness og því ljóst að hann hefur lengi verið með hugann við stór­skáld bók­mennta­sögunnar. Titil­bálkur Manna sem elska menn fjallar til að mynda um vin­áttu Fjölnis­mannanna Jónasar Hall­gríms­sonar og Tómasar Sæ­munds­sonar.

Dulbúnar tilfinningar

„Þessi karl­mennsku­heimur bók­menntanna er eitt­hvað sem ég er að velta fyrir mér, eins og til dæmis í þessum bálki um Tómas og Jónas. Ég hef mjög lengi verið upp­tekinn af því hvernig þessir 19. aldar menn töluðu hvorir við aðra. Hvernig þeir gátu notað allt önnur orð til að tala við vini sína heldur en við myndum gera í dag. Við náttúr­lega stöndum á ein­hvers lags kross­götum.“

Að sögn Hauks var það spennandi á­skorun að leyfa sér að fara út á til­finningarófið og velta fyrir sér þver­stæðum hug­mynda okkar um karl­mennsku í nú­tíð og þá­tíð. Honum finnst mikil­vægt fyrir karl­menn að taka sér það frelsi að rann­saka allar þær ó­líku til­finningar sem búa innra með þeim.

„Ég er að dul­búa til­finningar mínar með ein­hverjum hætti. Þetta er vissu­lega ljóð um Tómas og Jónas en á sama tíma er þetta líka ástar­ljóð til vinar, til karl­manns sem lifir og dregur andann á 21. öldinni. Skáld­skapurinn getur verið svo margt sam­tímis. Hann getur verið eitt­hvað fyrir mér en hann getur verið eitt­hvað allt annað fyrir þér sem lesanda,“ segir Haukur.

Kápa/Alexandra Buhl/Forlagið

Úr Menn sem elska menn

Græn­lands­há­karlinn
hvítur og stór

leiddi ekki hugann
að byltingunum fjórum
en hann horfði með glóð
í auga

á iðandi kroppa á sundi

hann elskaði menn
sem elskuðu menn
sem elskuðu að elska menn

og þar sem þeir ólmuðust
á sundi

þá dreymdi hann um
að læsa í þá tönnunum

Hákarlinn ó­rætt og marg­rætt tákn

Ein sterkasta tákn­mynd ljóða­bókarinnar er græn­lands­há­karlinn sem synt hefur um höfin í fjögur hundruð ár og er stillt upp and­spænis and­legri upp­ljómun Fjölnis­manna. Haukur segir há­karlinn hafa leitað á sig allt frá því að amma hans sýndi honum eld­gamlan bein­krók í eigu fjöl­skyldunnar frá 19. aldar há­karla­veiði­manni.

„Há­karlinn, hann er svona ó­rætt og marg­rætt tákn í bókinni. Hann er að vissu leyti ein­hvers lags tíma­hylki af því hann er svo ó­geðs­lega gamall. Hann er líka ein­hvers lags vísun í um­hverfis­málin sem ég var að fjalla um í Vistar­verum. En síðan er hann líka rán­dýrið sem býr innra með okkur öllum, hann er hættan. Á sama tíma og við erum alltaf að hugsa um hætturnar í náttúrunni þá stafar samt náttúrunni miklu meiri hætta af okkur heldur en okkur af henni,“ segir Haukur að lokum.