Draupnir Rúnar Draupnisson hefur starfað við ferðaþjónustu í 20 ár sem flugþjónn og fararstjóri. Hann segir hátíðirnar vera háannatíma í faginu og alltaf komi það í hlut einhvers að standa vaktina. Ósjaldan hefur hann verið staðsettur erlendis um hátíðarnar í tengslum við vinnu. Honum er sérlega minnistæð ferð til Póllands árið 2006.

„Það var þegar ævintýrið í Kárahnjúkum stóð sem hæst, en þá voru mörg hundruð Pólverjar að vinna þar við að byggja virkjunina,“ segir Draupnir. Hann segir að í upphafi hafi það komið honum óþægilega á óvart, að vera settur í leiguflug milli Egilsstaða og Póllands, og þurfa að eyða jólunum í vikustoppi í Kraká.

Draupnir Rúnar Draupnisson á að baki 20 ára feril í ferðaþjónustu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„En þetta voru á endanum stórkostleg jól með yndislegri áhöfn,“ segir hann. „Við borðuðum fisk að hætti Pólverja á aðfangadagskvöld, en ég er alinn upp við að borða fisk í öll mál heima í Neskaupsstað,“ segir Draupnir. Hann segir áhöfnina hafa notið sín á jólamörkuðum í Kraká og farið í styttri ferðir að skoða menningu og sögu svæðisins. „Þessi jól í Póllandi voru algjörlega æðisleg,“ segir hann.

Hann nefnir einnig minnistæða jólaupplifun við Kyrrahafs-strönd Mexíkó fyrir 20 árum síðan, þar sem hann var í tengslum við verkefni tengt fararstjórn. „Vinkona mín og frænka Sigurborg Ragnarsdóttir kom og var hjá mér. Við sátum á jóladag á sundfötunum og hún spilaði jólalög á flautu,“ segir hann og hlær. Hann segir að jólin í Mexíkó hafi verið fyrstu jólin hans erlendis, en fram að því hafði hann alltaf eytt jólunum með fjölskyldunni á Neskaupsstað.

Löng hefð fyrir jólahaldi á Grund

Sigrún Faulk, framkvæmdastjóri hjúkrunar á dvalarheimilinu Grund, segir að mikið sé gert úr aðventunni þar á bæ. „Við erum með aðventustundir og viðburðatengt jóladagatal,“ segir hún. Sigrún bætir við að vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sé minna um heimsóknir listamanna en áður, sem séu annars mjög algengar á þessum árstíma. Þó komi vissulega alltaf einhver og Sigrún segist eiga von á sönghópi barna frá Vesturbæjarskóla þann daginn. „Það er alltaf skemmtilegt og gleður,“ segir hún.
Hvað veisluhöld varðar segir Sigrún að borin sé fram skata á Þorláksmessu, lambafille á aðfangadag og hangikjöt á jóladag. Sumt heimilisfólk fari og eyði hátíðinni með fjölskyldu sinni utan húss, en aðrir kjósi að vera inni í rólegheitum og fá frekar heimsóknir á aðfangadag eða jóladag. „Við hvetjum til þess að fólk komi í heimsóknir rólegheitum. Heimilisfólkinu finnst þetta oft svo stressandi tími,“ segir hún. „Allir að flýta sér og svona, þannig að margir kjósa að vera hérna. Þeim finnst það rólegra.“

Frænkurnar Guðrún Birna Gísladóttir, fyrrum forstjóri Grundar og Sigrún Faulk, hjúkrunarforstjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Löng hefð er fyrir jólahaldi á Grund, sem verður 100 ára á næsta ári. Fyrrum forstjóri Grundar, Guðrún Birna Gísladóttir, er fædd á heimilinu og vann þar alla tíð. „Í áratugi hefur verið kveikt á jólaljósunum sem sett eru á suðurhlið hússins sem allir vesturbæingar tengja við“ segir hún og vísar í skilti þar sem stendur Gleðileg jól. Guðrún bætir við að áður hafi verið dansað í kringum jólatréð í garðinum og sungnir jólasöngvar. „Þetta var hefð sem börnin í hverfinu tóku ávallt þátt í,“ segir hún.

„Hér var líka oft einkar sérstakur andi í kringum jólin. Þá var flokkaður jólapóstur og kveðjur sem við bárum til heimilisfólksins,“ segir Guðrún. „Það voru líka alltaf litlar jólagjafir handa fólkinu. Allra fyrst man ég að það var gefið epli og appelsína. Þá sátum við, ég og litla systir mín, að pússa eplin og svo töldum við brjóstsykur í poka,“ segir hún og bætir við að síðan hafi verið gengið með gjafirnar til heimilisfólksins.

Á aðfangadag messaði afi Guðrúnar og eftir það fóru hún og systir hennar með föður sínum á öll herbergin, tóku í höndina á öllum og buðu gleðileg jól. „Á gamlárskvöld voru svið í matinn. Þá fór fólk með kjammana inn á herbergin og stakk úr þeim með vasahníf,“ segir hún.

Hótelið eins og stórt heimili

„Það er rosalega gefandi að fá gesti hingað á þessum tíma,“ segir Salvör Lilja Brandsdóttir hótelstjóri á Grand hótel í Reykjavík. „Hingað kemur allskonar fólk í gistingu sem hefur mismunandi væntingar,“ segir Salvör. Hótelið hringir inn jólin klukkan sex á aðfangadagskvöld, fyrir gesti og starfsfólk. Þó segir Salvör flesta gesti minna upptekna af þeim degi, og fókusinn sé heldur á jóladag.

„Við erum með alþjóðlegt jólahlaðborð sem við keyrum hérna, en svo eru aðrir sem eru bara á sinni klúbbsamloku og öli,“ segir hún. „Þetta er svo misjafnt og fólk er almennt ekki að taka þessa jólahátíð rosalega alvarlega,“ segir Salvör. „En við Íslendingar tökum þetta alltaf alla leið.“

Salvör Lilja Brandsdóttir, hótelstjóri á Grand hótel í Reykjavík segir að ferðamenn setji trúlofunarhringa í desertana á áramótunum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hún segir að það gerist að íslenskar fjölskyldur komi út að borða á aðfangadag en gjarnan séu þeir hópar tengdir gestum á hótelinu. „Það eru alltaf svona tvær eða þrjár stórfjölskyldur sem koma yfirleitt, og eru með tengingu,“ segir Salvör. „Svo eru hjón sem eru að kíkja í heimsóknir um kvöldið en vilja kannski ekki dvelja þar og kjósa að vera sjálfstæð.“

Hún man sérstaklega eftir íslenskum gesti sem kom einn til þeirra á aðfangadag. „Hann vildi gera vel við sig, kom og var út aðfangadag. Bjó einn og hafði ekki annan stað, hann var bara orðinn vinur okkar,“ segir Salvör. „Þetta er mjög fjölbreytt líf og það leggst yfir húsið einhver hátíðarblær, þegar við erum búin að lofta út eftir skötuna!“ Að sögn Salvarar býður hótelið gestum upp á skötu á Þorláksmessu og þetta árið eru 300 gestir skráðir til borðs í þeirri veislu.

Hún segir að bónorð séu vinsæl meðal ferðamanna á þessum árstíma. „Menn eru að setja trúlofunarhringa í desertana og sérstaklega um áramótin,“ segir Salvör og bætir við að nánast sé fullt hjá þeim um áramótin. Hún nefnir að hótelið slái upp risastórri gala-veislu á gamlárskvöld, en þá búi fólk sig upp. „Það er stemning og við skreytum rosa mikið.“

„Þetta er eins og risastórt heimili með mismunandi unglingum,“ segir hún að lokum.

Hátíð barnanna á Hringnum

Jóhanna Lilja Hjörleifsdóttir, hjúkrunarfræðingur, er deildarstjóri á legudeild Barnaspítala Hringsins. Hún segir um það bil sjö starfsmenn í húsi að kvöldi aðfangadags. Þó að ætíð sé reynt að koma öllum inniliggjandi heim á aðfangadag, þó að ekki sé nema í tvær klukkustundir. Þá séu alltaf einhverjir sem komast ekki heim. „Þá reynum við að gera aðstæðurnar eins hátíðlegar og hægt er,“ segir Jóhanna Lilja. „Foreldrarnir koma þá og borða með barninu og stundum ömmur og afar og systkinin líka,“ segir hún.

Hún segir að heimsfaraldur kórónuveiru hafi verið krefjandi í því tilliti. „Við erum með takmarkanir inn á deildina og núna eru bara fullbólusettir, 12 ára og eldri, sem mega koma og bara einn í einu,“ segir Jóhanna Lilja. „Við höfum alltaf fengið mikið af heimsóknum dagana fyrir jól og á aðfangadag, frá fólki úti í bæ,“ segir hún. Þar hafi fyrirtæki lagt sig fram og sjálfir jólasveinarnir hafi einnig heimsótt börnin. Undanfarið hafi þeir þó þurft að skemmta krökkunum úr garðinum fyrir utan, og fylgist krakkarnir með þeim úr gluggunum. „Maður reynir að gera þetta eins kósí og hægt er. Mér finnst alltaf voðalega hátíðlegt að vinna á aðfangadag og það er sérstök stemning sem myndast,“ segir Jóhanna. „Við erum með jólatré og deildin er skreytt.“ Tvö fyrirtæki stóðu fyrir því, þetta árið, að skreyta garðinn fallega. Segir hún það hafa vakið mikla lukku hjá börnum, foreldrum og starfsfólki. „Við fengum líka gefins jóladagatöl og útbýttum þeim fyrir alla. Það eru ótrúlega margir að hugsa til okkar,“ segir Jóhanna Lilja.

Jóhanna Lilja Hjörleifsdóttir, deildarstjóri á legudeild Barnaspítala Hringsins segir hátíðlegt að vinna á aðfangadag.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason