Bækur

Næturskuggar

Eva Björg Ægisdóttir

Útgefandi: Veröld

Fjöldi síðna: 368

Þriðja skáldsaga Evu Bjargar Ægisdóttur er glæpasagan Næturskuggar. Hún er jafnframt sú þriðja í sagnaflokknum um lögregluna á Akranesi og baráttu hennar við syndaseli þar í bæ. Líkt og í forverum Næturskugga, Marrinu í stiganum og Stelpum sem ljúga, er lögreglukonan Elma þar fremst í flokki ásamt öðrum prúðum lögreglumönnum umdæmisins.

Í þetta skiptið er lögreglan kölluð til um miðja nótt þegar eldur kviknar í húsi í rólegu íbúðahverfi á Akranesi. Ungur maður, sonur húsráðenda, verður eldinum að bráð og ekki líður á löngu þar til lögreglan áttar sig á því að um íkveikju er að ræða. Elma, Sævar og félagar þeirra fara á stúfana, en við fyrstu sýn virðist ekkert benda til þess að nokkur hafi viljað unga háskólanemanum nokkuð illt. Lögreglan þarf þar af leiðandi að kafa ansi djúpt í líf mannsins til þess að komast að því hvort einhver í hans nánasta umhverfi hafi viljað hann feigan. Á sama tíma fær lesandi að kynnast bæjarfulltrúa og lauslátum eiginmanni hennar, sem eru einnig íbúar þar í bæ.

Allir virðast hafa eitthvað óhreint í pokahorninu en lesandi þarf að fikra sig lengi áfram í gegnum fléttuna til að komast að hinu sanna. Líkt og góðum glæpasögum sæmir sigla lögreglumennirnir sjálfir heldur ekki lygnan sjó í hversdagslífinu og Elma gengur sjálf með leyndarmál sem hún getur ekki hulið lengi.

Næturskuggar er skemmtileg glæpasaga og fléttan vel hugsuð. Hins vegar virðist Eva eiga það til að flækja hlutina um of og hafa mörg járn í eldinum, þannig að lesandi fær innsýn inn í hugarheim of margra persóna. Persónurnar eru vel mótaðar og raunverulegar, en það er þar af leiðandi ekki mikið skilið eftir fyrir ímyndunaraflið.

Evu Björgu er hægt og rólega að takast að skrifa Elmu og félaga hennar inn í íslenska glæpasögu, það er víst. Sagnaheimurinn sem hún hefur skapað er vel mótaður, raunverulegur og væri í raun hægt að mjólka í mörg ár. En það væri líka gaman að sjá næstu bók hennar taka nýjan snúning og bregða örlítið frá þessu formi sem hún hefur haldið sig við í fyrstu bókum sínum.

Næturskuggar er líklega ein af þessum bókum sem er best að gleypa í sig í staðinn fyrir að smjatta á henni of lengi. Niðurstaðan kom kannski ekkert gífurlega á óvart en Eva Björg er skemmtilegur penni og það er óhætt að hlakka til fleiri bóka eftir hana.

Niðurstaða: Góður krimmi með alls konar skrautlegum snúningum. Stundum svolítið fyrirsjáanlegur en yfir meðallagi í sínum flokki.