Frönsku tvíburabræðurnir Grichka og Igor Bogdanoff eru báðir látnir, 72 ára að aldri, eftir baráttu við Covid-19. Bogdanoff-bræðurnir voru nokkuð þekktir í Frakklandi og störfuðu til dæmis í sjónvarpi.
Í frétt BBC kemur fram að báðir hafi lagst inn á sjúkrahús um miðjan desember eftir að hafa greinst með Covid-19. Þeir voru báðir óbólusettir og hafði veiran að lokum betur. Grichka lést þann 28. Desember en Igor lést á mánudag, 3. janúar.
Luc Ferry, fyrrverandi menntamálaráðherra Frakklands og góður vinur bræðranna, sagði við dagblaðið Le Parisien í síðustu viku að bræðurnir væru ekki endilega mótfallnir bólusetningum. Þeir hafi hins vegar ekki talið neina þörf á að þiggja bóluefni þar sem þeir væru báðir heilsuhraustir og í góðu formi.
Ferry sagðist þrátt fyrir það hafa hvatt bræðurna ítrekað til að láta bólusetja sig en þeir látið þau tilmæli sem vind um eyru þjóta.