Ingólfur Eiríksson og Elín Edda Þorsteinsdóttir eru höfundar bókarinnar Klón: eftirmyndasaga sem fjallar um tilveru klónahundsins Samsonar Ólafssonar Moussaieff og setur hann í víðara samhengi í máli og myndum í ljóðsögu sem útgefandi lýsir sem bæði nístandi og bráðfyndinni auk sem hún láti engan ósnortinn.

Eftirmyndasagan hverfist öðrum þræði um ábyrgð mannsins gagnvart lífi á jörðinni, dauða og endurfæðingu. Þar segir að Samson var eins og Sámur en upplifði sig annarlegan. „Eitthvað gerði að verkum að hann var ekki Sámur.“

Ingólfur segir verkinu þó alls ekki beint sérstaklega gegn eigendum klónsins en eins og löngu frægt er orðið var Bessastaðavarðhundurinn Sámur fyrrverandi forsetahjónunum, Dorrit Moussaieff og Ólafi Ragnari Grímssyni, svo harmdauði að Dorrit lét klóna hann.

Sárt ert þú leikinn, Samson klóni

„Ég fór einhvern veginn að hugsa hvað það væri furðulegt að eiga eigin tilvist undir því að vera eftirmynd af einhverjum öðrum. Að vera klón af einhverjum öðrum,“ segir Ingólfur um grunnhugmyndina að ljóðabókinni.

„Það er þessi annarleiki við það að eiga ekki tilveru á eigin forsendum og það er ofsalega annarlegt að klóna gæludýrið sitt en frá einhverjum rosalega furðulegum sjónarhóli er það ofsalega skiljanlegt líka. Það er náttúrlega sorg þarna á bak við.“

Skáldið sýnir tilfinningum Dorritar fullan skilning og segir aðspurður að honum þætti miður ef verk hans verði túlkað sem einhvers konar aðför að Ólafi og Dorrit. „Í raun þætti mér það svolítið leiðinlegt af því ég var alls ekki að reyna það með þessu.

„Sámur var Sámur áður en Samson varð Sámur.“
Fréttablaðið/Samsett

Ég hef heilmikla samúð með því að þau hafi gert þetta vegna þess að þú ferð ekkert að klóna hundinn þinn bara upp á grínið. Þú gerir það af því að þarna á bak við eru einhverjar ofsalega djúpstæðar tilfinningar sem eru raunverulegar,“ segir Ingólfur. „Hvort það sem þú gerir sé síðan réttlætanlegt er annað mál.“

Stóru spurningarnar

Ingólfur bætir við að ef til vill hljómi fáránlega að tala um það að klóna hund í þessu sambandi. „En þetta er eitthvað sem sprettur upp af sorg og síðan má náttúrlega kannski gagnrýna stórfyrirtækin, sem eru að nýta sér tilfinningalegt uppnám fólks, enn frekar en Dorrit og Ólaf og ég hef ekkert á móti þeim.

Það er alveg skóli sem segir að þau eigi þetta og megi þetta en svo er líka skóli sem myndi kannski spyrja hvort það sé nægilega góð siðferðisleg ástæða? Að þú getir gert svona hluti af því að þú hefur peninga til þess? Þetta er svona kannski þessi vinkill varðandi ábyrgð mannsins gagnvart lífi á jörðinni.“

Rökfræði

Ingólfur heldur áfram að velta vöngum og víkur að kaflanum Rökfræði í ljóðsögunni. „Þar er sett fram sú staðhæfing að Samson sé ekki Sámur, heldur sé hann sama og eins og Sámur. Þú ert afrit af einhverjum en þú ert ekki nákvæmlega eins. Það er eitthvað ofsalega dapurlegt við að vera ekki elskaður fyrir það að vera sá sem þú ert heldur það að þú líkist einhverju ástarviðfangi sem er látið.

Eftirmyndasaga Ingólfs og Elínar Eddu setur klónhundinn Samson í víðara samhengi og áleitnar spurningar um ábyrgð mannsins í sköpunarverkinu bergmála í gelti hans.
Fréttablaðið/Ernir

Það er rosalega skrýtið að tala um þetta á alvarlegum nótum af því að þetta er svo kostulegt dæmi en ég held líka að þeim mun dýpra sem er kafað ofan í allt sem er svona fyndið í kapítalismanum þá kemst maður að einhverju sem er svolítið harmrænt.“

9,5?

Þótt Sámur, eigendur hans og Samson síðar hafi verið mikið í fréttum er bókin þó ekki viðbragð við neinni sérstakri eftirspurn. „Þetta var nokkuð sjálfsprottið og það bað mig enginn um að skrifa þessa bók,“ segir Ingólfur um eftirmyndasöguna sem varð til á ritlistarnámskeiði, sem þau Elín Edda sitja bæði, hjá rithöfundinum Rúnari Helga Vignissyni í Háskóla Íslands.

„Við áttum að skrifa sannsögu, svona non fiction-verkefni, og ég spurði Rúnar Helga hvort það mætti skrifa sjálfsævisögu Samsonar klónahunds.“ Hugmyndin var tekin gild og að kennslustundinni lokinni segir Ingólfur að kennarinn hafi verið „rosalega hrifinn“ og hafi hvatt hann til þess að halda áfram með verkið.

„Ég gerði það. Kláraði þetta og sendi textann til gamans á Elínu Eddu sem var mjög hrifin af þessu og stakk upp á að hún myndi hanna bókverk úr þessu með myndum eftir hana og textanum mínum. Hún var mjög spennt fyrir því að gera myndirnar og hanna útlit bókarinnar sem er alveg stórkostlegt.“

Og var þetta verkefni upp á 9,5?

„Það voru reyndar engar einkunnir en ég sendi þetta síðan á Forlagið sem hafði samband tveimur dögum seinna og vildi gefa þetta út og það var bara rosalega skemmtilegt,“ segir Ingólfur sem er með Samsoni kominn inn fyrir þröskuldinn hjá Forlaginu sem mun gefa út fyrstu skáldsöguna hans, sem er lokaverkefnið í áðurnefndu ritlistarnámskeiði, í september.

„Hún heitir Stóra bókin um sjálfsvorkunn. Þetta eru tvær mjög ólíakr bækur en vonandi bækur sem fólk hefur gaman að. Eða nennir allavegana að lesa.“