Það er óþarfi að ofhugsa fyrstu skrefin í matjurtaræktun heima fyrir heldur er best að láta bara vaða, segir Ösp Viðarsdóttir, þýðandi og tveggja barna móðir, sem býr í Laugarnesinu í Reykjavík. „Þetta er svo miklu auðveldara en flestir halda og það þarf enga sérfræðiþekkingu eða flókinn búnað. Góð mold, fræ, vatn og þolinmæði er allt sem þarf. Það er líka gott að byrja á einhverju sem er sérlega einfalt, til dæmis kryddjurtum á borð við basilíku, kóríander, steinselju og dill sem er erfitt að klúðra. Klettakál, grænkál og ýmiss konar salat er líka gott fyrir byrjendur. Svo er auðvitað gott að leita ráða hjá fróðu fólki, lesa sér til á netinu, spyrja í garðyrkjuverslununum og leita fróðleiks í Facebook-hópnum Matjurtagarðurinn sem ég setti á fót fyrir rúmu ári síðan.“

Íbúar í blokk Aspar settu upp sameiginlegan matjurtagarð. MYND/AÐSEND

Mjög gefandi verkefni

Hún segir það fyrst og fremst vera mjög gefandi að rækta eigin mat. „Að sá fræi og fylgja því alla leið á diskinn er magnað ferli og um leið góð æfing í þolinmæði. Heimaræktað er líka almennt bragðbetra að mínu mati auk þess sem þú veist nákvæmlega hvaðan það kom, sem mér finnst kostur. Það er líka örugglega hægt að spara ágætis upphæðir þótt ég hafi aldrei tekið þær tölur saman. Sem dæmi er auðvelt að vera sjálfbær um salat og kryddjurtir í nokkra mánuði á ári án þess að kosta miklu til eða þurfa mikið pláss.“

Bráðhollar og góðar gulrætur beint úr garðinum. MYND/AÐSEND

Gengur yfirleitt vel

Ösp er alin upp í sveit og á móður með sama áhugamál. „Sjálf hóf ég að rækta kringum tvítugt og hef því verið að þessu, með hléum, síðustu fimmtán árin. Ég byrjaði með kryddjurtir í glugganum en síðustu ár hef ég líka verið með útiræktun í garðinum. Fjölskyldan býr í blokk og við tókum okkur saman nágrannarnir fyrir nokkrum árum og bjuggum til matjurtagarð í blokkargarðinum sem er miklu betra en að rækta bara gras. Ég hef prófað ýmislegt en rækta mest grænkál, klettakál og alls konar salat og kryddjurtir á borð við kóríander, basil, myntu, dill, steinselju og fleira. Einnig er ég svo heppin að eiga foreldra í sveit sem eiga kalt gróðurhús og þar er allt mögulegt ræktað, til dæmis kúrbítur, jarðarber, rauðrófur, hindber, tómatar og margt fleira. Almennt gengur þetta bara eins og í sögu, það er mjög sjaldan sem eitthvað fer alveg úrskeiðis þrátt fyrir að ég sé oft frekar löt þegar kemur að því að vökva og reyta arfa.“

Nýjar íslenskar kartöflur eru algjört sælgæti. MYND/AÐSEND

Nýjungar í vetur

Í vetur ætlar hún að prófa sig áfram með vatnsræktun heima. „Fyrir stuttu fjárfesti ég í litlu gróðurljósi og ætla að reyna að vera með kryddjurtir í gangi í allan vetur en það hef ég ekki gert áður. Svo ætla ég líka að vera dugleg að rækta spírur og æfa mig í græðlingum (e. microgreens). Næsta sumar vonast ég fyrst og fremst eftir góðu vori svo að ég geti byrjað sem fyrst að rækta úti. Annars verður þetta svipað og verið hefur en langtímaplanið er að koma upp gróðurhúsi líka, það er draumurinn.“

Radísur eru góðar í salatið, á samlokuna og milli mála. MYND/AÐSEND

Enginn með leiðindi

Facebook-hópurinn Matjurtagarðurinn, sem Ösp stofnaði vorið 2020, telur nú þegar tæplega 8.500 meðlimi. „Mér fannst vanta hóp þar sem er bara rætt um matjurtir en ekki aðra ræktun. Ég bjóst ekki alveg við því að hann yrði svona stór en ég fagna því auðvitað að svona margir séu áhugasamir og langar bara að hvetja sem flesta til að hella sér út í ræktun. Það er virkilega góð stemning í hópnum, allir til í að gefa góð ráð. Enginn með leiðindi og öll eru velkomin.“