Fögnuður ríkir í litlu bruggverksmiðjunum á Íslandi – og þær hafa sprottið upp eins og gorkúlur síðasta hálfa annan áratuginn – og ekki er ánægjan minnst hjá frumkvöðlinum sjálfum, Agnesi Önnu Sigurðardóttur hjá Kalda á Árskógssandi í Eyjafirði, sem hóf að brugga ölið árið 2006 – og sér ekki fyrir endann á því ævintýri.

„Ó, ég fagna þessu ákaflega, þetta er jafn sögulegt og það er mikilvægt fyrir okkur hjá litlu brugghúsunum,“ segir Agnes Anna, hæstánægð með að frumvarp dómsmálaráðherra í þessa veru hafi verið samþykkt samhljóða á miðvikudag með 54 atkvæðum við Austurvöll.

Sprúðlandi gleði

Tímamót, sagði ráðherrann af þessu tilefni, og Agnes tekur heilshugar undir það, sprúðlandi glöð fyrir sína hönd og annarra smábruggara.

„Þetta hefur verið baráttumál okkar svo lengi,“ bendir hún á – og rifjar upp þrálát leiðindi gestanna sem heimsótt hafa Kalda á undanliðnum 16 árum, en þeir hafa margir orðið forviða á að fá ekki að kaupa kippu eða tvær á staðnum.

„Það eru ekki síst útlendingarnir sem hafa hrist hausinn og hneykslast á þessari stæku íhaldssemi okkar Íslendinga,“ segir Agnes Anna sem sér nú fram á betri tíð með bjór á krana – og kannski krúttlega ölbúð úti í einu horni verksmiðjunnar þegar breytingin á áfengislögunum kemur til framkvæmda um næstu mánaðamót.

500 þúsund lítra ramminn

„En þetta verður svolítið snúið fyrir okkur. Skilgreiningin á litlu brugghúsi er að það framleiði ekki meira en 500 þúsund lítra á ári. Fyrir faraldurinn var ég að brugga um það bil það magn – og ég verð því að passa mig á að heimasalan fari ekki úr böndunum,“ segir hún og kveðst bíða eftir útfærslu stjórnvalda á þessari sölu beint frá býli.

Hún situr ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn – og það dugar ekki fyrir hana að framleiða fimm tegundir yfir allt árið og ríflega annað eins af árstíðabundnu öli. Hún opnaði rómuð Bjórböðin fyrir fimm árum skammt frá verksmiðjunni sinni – og nú er hún byrjuð að breyta gömlu fiskhúsi fyrir neðan bakka í gistiheimili, en þar verða sextán herbergi þegar allt verður kvittað og klárt.

Ævintýrið, frá því karlinn hennar, Ólafur Þröstur Ólafsson, lenti í vinnuslysi til sjós árið 2003 og þau þurftu að finna sér eitthvað nýtt að gera, heldur því áfram á fullri ferð í firðinum fagra.