„Allt að helmingi mat­væla í heiminum er sóað,“ minnir Rakel Garðars­dóttir á. Á næstunni koma á markað nýjar snyrti­vörur úr ís­lensku hrá­efni í um­hverfis­vænum um­búðum undir merki hennar Verandi. Hrá­efnið í snyrti­vörurnar fellur til við mat­væla­fram­leiðslu og land­búnað. Fyrir­tækið Verandi fram­leiðir gæða húð- og hár­vörur úr endur­nýttum hrá­efnum, með engum nei­kvæðum á­hrifum á um­hverfið.

Að baki fyrir­tækinu standa þær Rakel Garðars­dóttir og Elva Björk Barkar­dóttir. Fyrir­tækið varð til í tengslum við bar­áttu Rakelar en hún hefur starf­rækt sam­tökin Vakandi um nokkurra ára bil í því skyni að auka vitundar­vakningu um sóun mat­væla.

„Við nýtum gæða­hrá­efni sem fellur til úr land­búnaði og mat­væla­fram­leiðslu og þannig göngum við ekki á auð­lindir að ó­þörfu,“ segir Rakel frá. Á næstu vikum og mánuðum koma á markað nokkrar vörur úr smiðju Verandi, sápur og serum, maskar, bað­vörur, sjampó og sjam­pó­stykki. Rakel og Elva eru meðal annars í sam­starfi við hið virta merki Davines um fram­leiðslu á sjampói. „Við notum kaffi­korg, súkku­laði, bygg, gúrku, kræki­berja­hrat og bjór, svo eitt­hvað sé nefnt,“ segir Rakel.

„Og erum í vöru­þróun með fleiri hrá­efni, til dæmis gul­rætur og kar­töflur. Okkar sýn er að stuðla að hring­rásar­hag­kerfi og nýta það sem er til. Við teljum það al­gjör­lega nauð­syn­legt, helmingur mat­væla sóast í heiminum, vegna of­fram­leiðslu og vegna fram­leiðslu­að­ferða. Það er galið að svo miklu gæða­hrá­efni sé hent. Við viljum ekki ganga á náttúruna og þessar að­ferðir fyrir­tækja ganga ekki lengur.“ Rakel og Elva hafa fengið í lið með sér Einar Guð­munds­son hönnuð sem hefur hannað nýtt og fal­legt út­lit á vörurnar sem eru í um­hverfis­vænum um­búðum.

„Við lögðumst í ítar­lega rann­sóknar­vinnu hvað varðar um­búðirnar. Við vorum að nota gler, það er ekki um­hverfis­vænt hér á landi. Það er ekki endur­unnið að ráði hér á landi og það er þungt svo það er dýrt að flytja það. Það sem hentaði best var að nota endur­unnið plast, svo notum við einnig sykur­reyr í þær um­búðir þar sem það er hægt,“ segir Rakel og segist verða vör við að fram­leið­endur séu að vakna til með­vitundar um að þeir verði að skipta út um­búðum. Neyt­endur taki ekki annað í mál auk þess sem lög og reglu­gerðir séu óðum að breytast.

„Um­búða­markaðurinn er smám saman að vakna, það eru ekki alveg komnar skýrar lausnir en þetta er allt í rétta átt,“ segir Rakel sem segir Verandi munu í fram­tíðinni bjóða upp á á­fyllingar. „Við erum ný­sköpunar­fyrir­tæki og það er gaman að vera í for­ystu í þessum efnum. Við erum búnar að vera í tvö ár í vöru­þróun og hlökkum til að kynna vörurnar á markað.“