Festa — miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni eru frjáls félagasamtök með aðsetur í Háskólanum í Reykjavík. Hlutverk Festu er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja, stofnana og skipulagsheilda og hvetja til samstarfs og aðgerða á þessu sviði.

„Festa var stofnað fyrir 10 árum sem fræðslu- og umræðuvettvangur um samfélagsábyrgð. Starfsemin hefur svo þróast og vaxið í takt við þróun í þessum málaflokki og aukna áherslu á sjálfbærni hjá fyrirtækjum og hinu opinbera,“ segir Tómas Njáll Möller, formaður Festu. „Á sama tíma hafa samtökin verið virkur þátttakandi og leiðandi í þessari þróun, bæði með fræðslustarfsemi og með áherslu á að auka samstarf með því að brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða og leiða.“

Snýst um samskipti og fræðslu

Festa stóð fyrir stórri ráðstefnu í janúar síðastliðnum þar sem nokkrir leiðandi sérfræðingar í samfélagsábyrgð héldu erindi.

„Janúarráðstefna Festu snýst um samfélagsábyrgð og sjálfbærni stofnana, fyrirtækja og félaga. Þetta er stærsti viðburður sem Festa stendur fyrir á hverju ári og henni hefur vaxið ásmegin undanfarin ár,“ segir Tómas. „Ráðstefnan gengur fyrst og fremst út á að leiða saman fólk sem hefur góða reynslu og þekkingu á sínu sviði og getur miðlað til annarra reynslu sinni. Aðalmálið er að skiptast á skoðunum og vekja umræðu. Um leið er ráðstefnan öflugur fræðsluvettvangur og vettvangur fyrir fólk til að hittast og kynnast.

Í ljósi aðstæðna var áherslan í ár á nýtt upphaf (e. The Great Reset). Þ.e.a.s. hvernig við getum spilað sem best úr núverandi aðstæðum. Í kjölfar heimsfaraldursins þarf að ráðast í heilmiklar fjárfestingar og endurskipulagningu. Við veltum því upp hvernig mætti nýta aðstæðurnar til að takast á við áskoranir sem snúa að sjálfbærni, bæði hvað varðar umhverfis- og félagslega þætti.“

Ýmsar áskoranir

„Þátttakendur ráðstefnunnar voru sammála um aukið mikilvægi sjálfbærni í allri starfsemi fyrirtækja og opinberra aðila og að það skipti máli að setja skýr og mælanleg markmið og fylgja þeim eftir,“ segi Tómas. „Það er líka að verða mikilvæg viðhorfsbreyting í þessum efnum sem er ástæða til að fylgja eftir. Margir leiðandi fjárfestar leggja t.a.m. aukna áherslu á sjálfbærni og samfélagsábyrgð og það er meiri áhersla á hana alþjóðlega, m.a. í tengslum við Parísarsamkomulagið og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Vegna EES samningsins hefur löggjöf um sjálfbærni varðandi umhverfis- og félagsmál og stjórnarhætti fyrirtækja líka þróast hér á landi.

Annað sem var mikið rætt á ráðstefnunni er hvernig íslensk fyrirtæki geta fótað sig í þessari þróun og jafnvel nýtt hana sem samkeppnisforskot,“ segir Tómas. „Fyrirtækin sem keppast við að aðlagast breyttu umhverfi ættu að vera í betri stöðu en keppinautar sem bregðast ekki jafn hratt við.

Þá var líka fjallað um áskoranir sem fylgja hamfarahlýnun og félagslegt réttlæti í rekstri fyrirtækja,“ segir Tómas. „Það er t.d. mikil áskorun sem getur fylgt langri virðiskeðju fyrirtækja. Þegar starfsemin teygist yfir margar heimsálfur minnkar stundum áherslan á umhverfismál, velferð starfsmanna og aðra samfélagslega þætti.“

Öflugir þátttakendur

„Við fengum öflugan hóp alþjóðlegra fyrirlesara á ráðstefnuna, m.a. Höllu Tómasdóttur, forstjóra B Team, og fjóra erlenda leiðtoga á sviði fjárfestinga og stefnumótunar tengdum sjálfbærni. Það voru líka þrennar pallborðsumræður með öflugum leiðtogum úr íslensku atvinnulífi þar sem málin voru krufin og rædd frá ólíkum sjónarhornum,“ segir Tómas.

„Þar sem aðstæður leyfðu okkur ekki að halda hefðbundna ráðstefnu var ákveðið að halda hana rafrænt, sem gaf okkur tækifæri til að fá fleiri erlenda fyrirlesara og að miðla þessu til mun fleiri en áður,“ segir Tómas. „Upptakan af ráðstefnunni hefur þegar fengið mörg þúsund áhorf svo umfjöllunin er greinilega að hitta í mark.“


Nánari upplýsingar um Festu má finna á www.samfelagsabyrgd.is. Efst á undirsíðu helgaðri janúarráðstefnunni 2021 má finna hlekk á upptöku af allri ráðstefnunni en einnig er hægt að horfa á klippur úr henni á YouTube-síðunni, Festa samfélagsábyrgð.