Mark Ronson og Grace Gummer hafa tilkynnt trúlofun sína. Það þætt vart tíðindi nema af því að þau eru í heimi stjarnanna í Ameríku. Mark er 45 ára bresk-amerískur tónlistarmaður, plötusnúður, lagahöfundur, hljómplötuframleiðandi og hljómsveitarstjóri.

Hann er hvað þekktastur fyrir samstarf sitt við fræga tónlistarmenn eins og Amy Winehouse, Adele, Lady Gaga, Robbie Williams, Miley Cyrus og marga fleiri. Hann hefur hlotið sjö Grammy-verðlaun. Auk þess fékk hann Óskarsverðlaun, Golden Globe og Grammy fyrir lagið Shallow úr kvikmyndinni A Star is Born þar sem hann var meðhöfundur.

Heimsfræg móðir

Grace Gummer er kannski þekktust fyrir að vera dóttir Meryl Streep en hún fetaði í fótspor móður sinnar og er starfandi leikkona. Grace er tíu árum yngri en Mark. Orðrómur hefur verið á kreiki um samband þeirra frá því í september þegar þau sáust fyrst saman á veitingastað í New York. Nýlega skartaði Grace fallegum demantshring og Mark upplýsti að þau væru opinberlega trúlofuð.

Bæði Mark og Grace hafa verið í hjónabandi áður. Hennar hjónaband stóð þó einungis í 42 daga á síðasta ári. Hvorugt á barn en segjast hafa áhuga á því að stofna til fjölskyldu. Grace hefur starfað jafnt í leikhúsi, sjónvarpi og í kvikmyndum.

Grace Gummer er kannski þekktust fyrir að vera dóttir Meryl Streep.
Fréttablaðið/Getty