Auður er margmiðlunarfræðingur að mennt. Hún er með mikinn áhuga á öllu því sem við kemur sjálfbærri hönnun og hvers konar endurnýtingu. Eftir námið hóf Auður að starfa sjálfstætt sem grafískur hönnuður og vinnur hún ennþá en við það í dag en minna mæli. Sjálf var hún í nokkur ár með aðstöðu hjá Setrinu (Coworking rými) sem var á vegum nýsköpunarmiðstöðvar og þekkir því af eigin reynslu hvernig slíkt fyrirkomulag getur verið hvetjandi fyrir sjálfstætt starfandi hönnuði. Auður setti á laggirnar samvinnustofuna VERA Work_Shop vegna þess að hún sjálf var að leita að slíkri aðstöðu fyrir sjálfa sig. Lítið sem ekkert úrval var í boði á viðráðanlegu verði þannig að þá voru góð ráð dýr.

,,Það að hafa sölugallerí undir sama þaki og samvinnustofa er hugsað til að auðvelda hönnuðum að koma vörum sínum á framfæri. Háar söluprósentur og leiga á hillu í hönnunarbúð getur kostað ansi mikið og erfitt að komast þar að. Aðildarfélögum gefst þar tækifæri á að selja hönnun sína gegn afgreiðslustörfum en einnig viljum við bjóða utanaðkomandi hönnuðum og listamönnum á að leigja hillu hjá okkur til að koma sér á framfæri og til að halda sýningar," segir Auður.

,,Hjá okkur getum við kannað hvort að það sé markaður fyrir vöruna þína áður en farið er með hana lengra. Lýsing á starfsemi VERA Work_Shop er skapandi samvinnustofa (CoWorking Space) fyrir konur óháð þjóðerni og þeim sem tilheyra hópum í samfélaginu sem eru félagslega jaðarsettir, með áherslu lagða á sjálfbæra hönnun. Við tökum vel á móti öllum óháð kyni sem flokkast undir þennan hóp," segir hún.

FBL Gallerí Skipholti 3

Undirbúa námskeið fyrir fötluð ungmenni

Þann 1.mars síðastliðinn flutti VERA Work_Shop í nýtt verslunarhúsnæði á jarðhæð að Skipholti 35 í Reykjavík. ,,Þar leggjum við áherslu á frekari uppbyggingu fyrirtækisins og samfélagsins okkar og einnig sterkari áherslu á minni úrgang, aukna endurvinnslu og endurnýtingu. Þar munum við bjóða upp á u.þ.b. 10 vinnurými sem hægt er að leigja á sanngjörnu verði. Með tímanum munum við fá gestafyrirlesara og fleira í þeim dúr til að miðla þekkingu sinni áfram til okkar. Þetta er svokölluð "Klasahugmyndafræði". Við höfum t.d. sem hliðarverkefni verið að undirbúa námskeið fyrir fötluð ungmenni þar sem endurnýting og sjálfbærni verður höfð að leiðarljósi. Námskeiðin verða uppsett með þeim hætti að þátttakendur fá efni og kennslu í því að nýta og gefa hlutum nýtt líf án þess endilega að nota sérstök tæki og tól sem ekkert endilega allir hafa aðgang að. Hjá okkur læra þau að afla sér aukatekna með því að selja svo vörur sínar sem voru útbúnar á námskeiðinu í sölugalleríinu okkar. Markmiðið er að þessi hópur geti sótt námskeiðin án endurgjalds. Mikil vöntun er fyrir slík námskeið. Ég persónulega hef sjálf reynslu á þessu sviði sem móðir fatlaðs ungmennis. Við höfum nú þegar fengið smá styrk frá Leiðarljósi til að geta haldið nokkur slík námskeið þessum hópi að kostnaðarlausu," segir Auður.

FBL Gallerí Skipholti

Opna fyrir almenning í næstu viku

Í dag eru sex konur með vinnurými í verslunarhúsnæðinu í Skipholti. Þær eru Gerða Kristín Lárusdóttir gullsmiður, Sædís Ýr Jónasdóttir og Inga Björk Andrésdóttir fatahönnuðir, Sif Ásthildur Guðbjartsdóttir myndlistakona, Ísabella Leifsdóttir listakona og Auður sjálf sem sér um reksturinn á Vera Work_Shop ásamt því að vinna að endurhönnunar verkefnum. Auður segir að enn séu nokkur laus vinnurými með aðgang að galleríi fyrir áhugasama.

,,Við ætlum að opna vinnustofuna og galleríið fyrir almenning í næstu viku og það er mikil tilhlökkun í öllum hér. Við opnum galleríð formlega á miðvikudag klukkan 16-20 og verðum þá með opnunarteiti. Við munum þá bjóða gesti og gangandi velkomna til okkar hér í Skipholtið. Við verðum síðan með opið hérna 5.-7. maí kl. 12-18," segir Auður og bætir við að listakonurnar séu að taka þátt í “off venue” en ekki beint í hönnunarhátíðinni Hönnunarmars sjálfri.

FBL Nýtt gallerí í Skipholti

Sædís Ýr er spennt að opna nýja galleríið fyrir gestum og gangandi.

Nánar má sjá um vinnustofuna og galleríið á netfanginu vera@veraworkshop.is

Einnig á https://www.facebook.com/veraworkshop og instagramminu https://www.instagram.com/verawork_shop/