Sannkölluð tímamót eru fyrir gamla Klaustur barinn sem hefur nú fengið nýtt nafn eftir hugmyndasamkeppni. Barinn heitir nú Aldamót en búið er að breyta nafninu á Facebook síðunni en þó á eftir að samþykkja það áður en opnað verður á ný að sögn rekstrarstjóra.

Líkt og alþjóð veit komst barinn í sviðsljósið í nóvember árið 2018 þegar upptökur af niðrandi samtali sex þingmanna voru sendar fjölmiðlum af uppljóstraranum „Marvin“ sem reyndist síðar vera Bára Halldórsdóttir.

Við tók mikið fjölmiðlafár og þrátt fyrir að hafa harmað það að nafn barsins hafa flækst inn í málið, náðu rekstraraðilar að nýta umfjöllunina sér í hag, meðal annars með því að auglýsa sig á Facebook sem „verst geymda leyndarmál Reykjavíkur,“ og bjóða upp á jólaglögg með skreyttum hljóðnema.

Forsvarsmenn Klausturs blésu til hugmyndasamkeppni um nýtt nafn og lokuðu barnum til að endurnýja staðinn. Stefnt er á að opna hann á ný á næstu vikum.

„Við vorum með hugmyndasamkeppni hjá okkur í samstarfi við markaðsstofuna og svo var kosið um nafn; bæði með hugmyndum frá samfélagsmiðlum og frá starfsfólki,“ segir Val­garður Finn­boga­son rekstrar­stjóri í samtali við Fréttablaðið.

„Við stefnum á að opna undir nýjum formerkjum þannig að fólk geti komið og séð breytingarnar. Við erum mjög spennt að sýna viðskiptavinum nýja staðinn.“

Nafnið Aldamót er afar viðeigandi að mati blaðamanns. Alda er samheiti yfir báru og mót getur átt við samkomu manna, jafnvel þingmanna. Valgarður segir þó ekkert um kenningar blaðamanns um dýpri meiningu nafnsins

Af Facebook síðu Aldamóta: „Við notum þennan tíma þar sem allt er stopp á þessum merku tímamótum til að halda áfram með breytingar.“