„Við erum komin til að gleðjast, njóta, lifa og læra og upp­lifa saman. Í Borgar­leik­húsinu tökum við með okkur efni frá fyrra leik­ári og þar ber kannski hæst Níu líf, sýningu ársins á Grímunni 2022, og barna­sýningu ársins Emil í Katt­holti,“ segir Bryn­hildur Guð­jóns­dóttir Borgar­leik­hús­stjóri.

Leik­árið 2022-2023 hófst nú á dögunum með áður­nefndum sýningum sem Bryn­hildur gerir ráð fyrir að muni lifa út leik­árið.

„Síðan erum við með 14 nýjar frum­sýningar auk þess sem fylgir okkur frá fyrra leik­ári. Þar má nefna Ég hleyp, með Gísla Erni, frá­bæru sýninguna hans Vals Freys Fyrr­verandi, Njálu á hunda­vaði eftir Hund í ó­skilum sem er að fara vel í landann og mjög vel í skóla­hópa, og svo dá­sam­legu ung­barna­sýninguna Tjaldið sem er sam­starfs­verk­efni við Mið­nætti.“

Á eigin vegum er fyrsti einleikur Sigrúnar Eddu Björnsdóttur á 40 ára ferli.
Plakat/Borgarleikhúsið

List leikarans í fyrir­rúmi

Fyrsta frum­sýning leik­ársins verður svo verkið Á eigin vegum, 17. septem­ber, ein­leikur með Sig­rúnu Eddu Björns­dóttur byggður á sam­nefndri skáld­sögu Kristínar Steins­dóttur. Leik­gerðin er unnin af Maríönnu Clöru Lúthers­dóttur og Sölku Guð­munds­dóttur en leik­stjóri verksins er Stefán Jóns­son.

„List leikarans verður í fyrir­rúmi því þarna er Sig­rún Edda Björns­dóttir, okkar frá­bæra kanónu­leik­kona, að stíga á svið í ein­leik í fyrsta sinn á fjöru­tíu ára ferli. Leik­myndin er lista­verk út af fyrir sig en Egill Sæ­björns­son ljær okkur þar snilli sína. Fyrir að­dá­endur Sissu, Kristínar Steins og Stefáns Jóns­sonar, sem eru ekki færri, þá verður þetta al­gjör konfekt­moli á Litla sviðinu,“ segir Bryn­hildur.

Það er skammt stórra högga á milli því næsta frum­sýning haustsins verður 23. septem­ber þegar gaman­leikurinn Bara smá stund verður frum­sýndur á Stóra sviðinu.

„Þetta er spreng­hlægi­legur gaman­leikur eftir Fl­orian Zeller sem skrifaði til að mynda Föðurinn. Þor­steinn Bachmann leikur hinn franska Michel sem býr í fal­legri íbúð í París. Hann skortir ekkert en akkúrat þennan laugar­dag þegar hann finnur fá­gæta djass­plötu á markaði og langar ekkert annað en að fá bara smá stund til að hlusta á hana þá þurfa allir í kringum hann, fjöl­skylda og bestu vinir, að ljóstra upp um ein­hver leyndar­mál,“ segir Bryn­hildur.

Álf­rún Örn­ólfs­dóttir leik­stýrir ein­vala­liði leikara en auk Þor­steins fara með hlut­verk Bergur Þór Ingólfs­son, Jörundur Ragnars­son, Sigurður Þór Óskars­son, Sól­veig Arnars­dóttir, Sól­veig Guð­munds­dóttir og Vil­helm Neto.

Brynhildur segir leiðarstef komandi leikárs hjá Borgarleikhúsinu vera að lifa af.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Allir deyja

Í lok októ­ber verður önnur stór frum­sýning þegar verkið Síðustu dagar Sæunnar eftir Matthías Tryggva Haralds­son, annað leik­skáld Borgar­leik­hússins, verður frum­sýnt á Litla sviðinu. Guð­rún S. Gísla­dóttir leikur aðal­hlut­verkið Sæunni auk þess sem Jóhann Sigurðar­son og Snorri Engil­berts­son fara með hlut­verk.

„Þarna er fjallað um dauðann á gaman­saman hátt. Það deyja allir, það er ó­um­flýjan­legt, það eitt vitum við um lífið. Það er stór­kost­legt að fylgjast með leik­skáldi þroskast og þróa sína list. Hér gerir Matthías vel og hún Sæunn sem Guð­rún leikur á ein­hvern ó­trú­legasta mónó­lóg sem ég hef séð síðustu ár í þessu verki, við verðum ekki svikin,“ segir Bryn­hildur.

Hin litháíska Uršulė Bartoševičiūtė leikstýrir nýrri uppfærslu Borgarleikhússins af Macbeth.
Plakat/Borgarleikhúsið

Vínandi og jóla­andi

Í lok árs verður frum­sýnd á Nýja nýja sviðinu sýningin Mátu­legir sem er sviðs­út­gáfa af Óskars­verð­launa­kvik­mynd Thomas Vin­ter­berg, Druk. Bryn­hildur leik­stýrir verkinu en Hilmir Snær Guðna­son, Hall­dór Gylfa­son, Jörundur Ragnars­son og Þor­steinn Bachmann leika fjóra lífs­leiða mennta­skóla­kennara sem á­kveða að sann­reyna til­gátu norsks heim­spekings um að manneskjan sé fædd með hálfu prómilli á­fengi of lítið í blóðinu. Um er að ræða heims­frum­sýningu á verkinu og er Thomas Vin­ter­berg væntan­legur til landsins.

„Frá örófi alda hefur mann­skepnan sóst í á­hrifin sem vín hefur á okkur. Það losnar að­eins um mál­beinið og hryggurinn verður svo­lítið mýkri, en þegar vín­anda ber á góma þá er mjög stutt á milli heilags anda og illra anda. Þetta er grát­bros­legt verk um það að feta ein­stigið á milli gleði og sorgar, þetta sem kallast lífið,“ segir Bryn­hildur.

Í janúar 2023 verður svo frum­sýnd ný út­gáfa af einu þekktasta verki leik­hús­bók­menntanna, Macbeth eftir Willi­am Shakespeare, í þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafns­sonar og leik­stjórn Uršulė Bartoševičiūtė, ungs litháísks leik­stjóra sem er á hraðri leið upp stjörnu­himinn evrópska leik­hússins. Hjörtur Jóhann Jóns­son og Sól­veig Arnars­dóttir fara með aðal­hlut­verkin Macbeth og lafði Macbeth.

„Verkið verður skoðað með þeim nauð­syn­legu gler­augum sem leik­húsið þarf í dag, í tengslum við átök og nú­verandi heims­mynd. Um er að ræða 400 ára gamla sögu sem leik­hús­unn­endur gjör­þekkja og hafa sínar hug­myndir um. Í þetta sinn förum við ó­troðnar slóðir, elsta verkið er sett í fangið á yngstu list­rænu stjórn­endunum. Þetta verður á­huga­verð stúdía með sér­lega kraft­miklum tólf manna leik­hóp,“ segir Bryn­hildur.

Það eru í raun undur og stór­merki að við skyldum standa af okkur þessa brot­sjói. En hér erum við, sterk sem aldrei fyrr, með fullt hús af hamingju og töfrum.

Brött og stór­eyg

Í inn­gangs­texta kynningar­rits Borgar­leik­hússins kemur fram að leiðar­stef komandi leik­árs sé að lifa af. Spurð um hvers vegna það hafi orðið yfir valinu segir Bryn­hildur að þegar verk­efna­vals­nefnd leik­hússins hafi verið að stilla upp komandi leik­ári hafi þau séð að þetta var það sem sam­einaði verkin. Að lifa af and­spænis á­föllum og erfiðum að­stæðum. Nefnir hún þar til að mynda verkið Góða ferð inn í gömul sár eftir Evu Rún Snorra­dóttur, hitt leik­skáld Borgar­leik­hússins, sem fjallar um eyðni­far­aldurinn í Reykja­vík á síðustu öld.

„Þetta er okkar leiðar­stef en til þess að lifa af þá þurfum við að hlæja og við bjóðum upp á leik­ár sem er stút­fullt af myrkri og ljósi og öllu þar á milli. Til þess að geta farið á myrkustu staðina þá þurfum við að fara í mest dillandi hláturinn,“ segir hún.

Er Borgar­leik­húsið búið að jafna sig eftir Co­vid-árin?

„Borgar­leik­húsið stendur ó­trú­lega vel miðað við að­stæður af því að rekstrar­form þessa leik­húss er sex­tíu prósenta sjálfs­afli. Það eru í raun undur og stór­merki að við skyldum standa af okkur þessa brot­sjói. En hér erum við, sterk sem aldrei fyrr, með fullt hús af hamingju og töfrum. Við erum í start­holunum og hlökkum til að taka á móti gestum. Við erum alltaf brött og stöndum bara stór­eyg og spennt gagn­vart leik­árinu, því það er nú einu sinni svo að við sem störfum við leik­hús hættum aldrei að vera börn þegar það ber á góma.“