Þann 3. desember sendi söngkonan Grimes sendi frá sér lagið Player of games, sem á íslensku gæti útlagst sem „Sá sem leikur leiki.“ Texti lagsins hefur verið til umræðu síðustu daga en þar þykjast tónlistarspekúlantar finna fremur skýlausar tilvísanir til fyrrverandi kærasta Grimes, auðkýfingsins Elon Musks, en þau hættu saman í september á þessu ári.

Í texta lagsins segir, lauslega snarað yfir á íslensku: „Ég er ástfangin af aðal leikmanninum, en hann mun alltaf elska leikinn meira en hann elskar mig. Sigldu burt út í kaldar óravíddir geimsins. Jafnvel ástin getur ekki haldið þér á þínum stað.“

I’m in love

With the greatest gamer

But he’ll always love the game

More than he loves me

Sail away

To the cold expanse of space

Even love

Couldn’t keep you in your place

Þarna er ekki langsótt að ætla vísun í SpaceX geimflauga-ævintýri Elon Musks, eitt af hans þekktari verkefnum, þó að hann hafi ekki ennþá dembt sér út í geim í eigin persónu.

Þó hafa einhverjir bent á að platan Geidi Primes, sem lagið er af, sé sneisafullt af vísunum í vísindaskáldsöguna Dune, frá 1965. Ætla hinir sömu að titill lagsins Player of games sé lítið annað en vísun í aðra vísindaskáldsögu, The Player of Games eftir Iain M. Banks frá 1988.

Elon Musk veifar ljósmyndara fyrir utan Tesla Giga-verksmiðjuna í Berlín i september. Mynd/EPA

Grimes og Elon Musk eiga saman soninn X Æ A-12 Musk, en óvenjuleg nafngiftin setti heimspressuna á hliðina í maí 2020.