Kyrrahafslýsingur er þorsktegund sem er veidd í miklu magni í Bandaríkjunum en er aðallega borðuð í Evrópu. Jung Kwon, aðstoðarprófessor við ríkisháskólann í Oregon, rannsakaði tegundina til að reyna að finna nýjar tegundir til nýtingar svo hægt sé að minnka álagið á þá stofna sem eru vinsælastir í heimalandi hennar. Fjallað var um rannsóknina á vefsíðunni ScienceDaily og hún var birt í heild á vefsíðunni mdpi.com.

Kwon rannsakar sjávarlífverur og möguleikana á því að þær geti bætt heilsu fólks og hefur sérstakan áhuga á gagnsemi hluta úr sjávarlífverum eins og fiskroði, sem margir Bandaríkjamenn henda einfaldlega, í stað þess að nýta.

„Fiskroð er hráefni sem er til í miklu magni og við vitum nú þegar að það inniheldur ýmsa dýrmæta næringu,“ segir Kwon. „En við vildum komast að því hvaða aðra gagnlega eiginleika mætti finna í einhverju sem er yfirleitt álitin aukaafurð.“

Minnkar hrukkur og bólgur

Kwon og samstarfsfélagar hennar, sem komu úr ríkisháskólanum í Oregon og Kyung Hee-háskólanum í Suður-Kóreu, birtu nýlega rannsókn sína í ritrýnda læknatímaritinu Marine Drugs. Í rannsókninni skoðuðu þau sameindabrautir sem stuðla að hrukkumyndun í húðinni með áhrifum sínum á frumur. Þessi hrukkumyndun á sér stað vegna áhrifa útfjólublárrar geislunar á húðina, en hún brýtur niður kollagen í húðinni.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar getur roðið af Kyrrhafslýsingi unnið gegn niðurbroti á kollagen í húðinni sem á sér stað vegna útfjólublárrar geislunar frá sólinni.

Rannsakendur tóku gelatín úr Kyrrahafslýsingi og skoðuðu svo hvaða áhrif það hefði á andoxunar- og bólguviðbrögð og brautir sem vitað er að brjóta niður kollagen og stuðla að myndun þess.

Niðurstöður þeirra voru að roð Kyrrahafslýsings hefði eftirfarandi áhrif:

  • Það endurvirkjaði að vissu marki kollagenmyndunarferli sem útfjólublá geislun hafði bælt niður.
  • Það kom að vissu marki í veg fyrir virkjun á niðurbrotsferli kollagens sem útfjólublá geislun hafði hraðað.
  • Það stuðlaði að aukinni andoxunarvirkni, en andoxunarefni eru efni sem geta komið í veg fyrir eða hægt á skemmdum á frumum.
  • Það stuðlaði að öðrum bólgueyðandi áhrifum.

Tilefni til frekar rannsókna

Kwon tók fram að þetta séu bara frumniðurstöður sem komu fram á rannsóknarstofu þar sem notast var við frumulíkan sem líkir eftir mannfrumum. Hún segir að frekari rannsókna sé þörf þar sem notast væri við frumulíkön sem byggja á dýrafrumum.

„Við sáum nokkra möguleika þar sem frumulíkanið brást við á jákvæðan hátt. Það gefur okkur góð sönnunargögn til að taka þessi næstu skref,“ segir hún.

Það er ekki nýtt að efni úr fiskroði geti hjálpað til í baráttunni gegn hrukkumyndun, en hér á landi hafa verið framleiddar vörur úr fiskroði sem hafa þetta hlutverk. Þessar niðurstöður gefa til kynna að mögulega verði hægt að nota roðið af Kyrrahafslýsingi, sem er veiddur í mjög miklu magni af ýmsum ríkjum, með sama árangri.