Hampur hefur fengið slæmt orðspor á síðustu áratugum, þar sem margir tengja þessa nytjajurt fyrst og fremst við vímuefnið sem ákveðin afbrigði kannabisplöntunnar framleiða. En orðið hampur er notað yfir afbrigði sem inniheldur aðeins snefilmagn af vímugjafa og býður upp á ótal möguleika í iðnaði og matvæla-, lyfja- og fæðubótarefnaframleiðslu, ásamt því að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Á síðustu árum hefur hampurinn því sífellt meira verið tekinn í sátt.

Á síðasta ári ákváðu hjónin Oddný Anna Björnsdóttir viðskiptafræðingur og Pálmi Einarsson iðnhönnuður að selja húsið sitt í Kópavogi og kaupa jörðina Gautavík í Berufirði, þar sem þau hafa meðal annars gert tilraunir með ræktun og vinnslu hamps.

Hjónin Oddný Anna Björnsdóttir og Pálmi Einarsson fluttu með fjölskylduna til Berufjarðar og hafa gert tilraunir með ræktun á hampi.

„Okkar nálgun að þessu snýr aðallega að iðnaðinum, en ekki fæðubótarefnaframleiðslu, en maðurinn minn hefur skoðað iðnaðarhamp í meira en áratug,“ segir Oddný. „Hann byrjaði að kynna sér plöntuna þegar hann starfaði sem þróunarstjóri hjá Össuri hf. og fór að velta fyrir sér hvort hægt væri að nota hamptrefjar í stað kol- og glertrefja. Fljótlega var hann farinn af gapa af undrun yfir öllum þeim möguleikum sem plantan býður upp á.“

Settu upp sýnidæmi

„Á endanum ákváðum við að besta leiðin til að kynna kostina væri að setja upp sýnidæmi,“ segir Oddný. „Hugmyndin okkar var ekki að græða á þessu, heldur fyrst og fremst vitundarvakning um hvernig hampur getur hjálpað okkur við að draga úr neikvæðum áhrifum mannsins á jörðina og auka sjálfbærni, en Ísland hefur einmitt skort hráefni til iðnaðar.

Við vissum ekki hvernig þetta myndi ganga og erum engir sérfræðingar í ræktun, en höfum kynnst Sveini frá Kálfskinni sem gerði tilraunir á þessu fyrir tíu árum og ræktaði þá yfir þriggja metra háar plöntur,“ segir Oddný. „Við ákváðum að prófa ræktun á nokkrum svæðum nálægt íbúðarhúsinu sem væri auðvelt að nálgast. Ræktunin var mjög einföld en þrátt fyrir langvarandi þurrk og kalt og vindasamt sumar náðu plönturnar sér á strik á nokkrum svæðum og náðu 130 cm hæð. Til samanburðar vorum við með plöntur inni sem fóru vel yfir tveggja metra hæð.“

Ræktun Oddnýjar og Pálma, rétt eins og tilraunir Sveins frá Kálfskinni fyrir tíu árum, sýnir að hampur plumar sig vel í íslenskri náttúru.

Þessi tilraun hefur svo vakið töluverða athygli. „Það hjálpar mjög mikið að geta sagt frá þessu verkefni þegar við kynnum kosti hampsins, hvort sem það er fyrir stjórnmálamönnum, fjölmiðlum eða á öðrum vettvangi,“ segir Oddný. „Allir virðast vera mjög áhugasamir og jákvæðir.“

Miklir möguleikar í iðnaði

Oddný segir að hampplantan hafi mjög jákvæð áhrif á umhverfi sitt. „Hún bindur meira kolefni og framleiðir meira súrefni en nokkur önnur planta, hreinsar jarðveginn og þarf engin eiturefni,“ segir Oddný. „Hún vex líka ótrúlega hratt við ólíkar aðstæður um allan heim, allt upp í átta metra við bestu skilyrði og í heitari löndum er hægt að fá allt að fjórar uppskerur á ári.

Svo er hægt að framleiða nánast allt úr þessu,“ segir Oddný. „Um miðja síðustu öld var talið að hægt væri að framleiða 25 þúsund vörur úr hampi, en í dag hefur sú tala margfaldast.

Lífrænt hampplast lofar til dæmis mjög góðu, en það er eins og venjulegt plast nema það brotnar niður náttúrulega eftir ákveðinn tíma,“ segir Oddný. „Einnig er hægt að nýta stönglana til að búa til ígildi viðar sem er hægt að nota í parket, húsgögn eða til húsbygginga. Hampsteypa er líka umhverfisvænni en venjuleg steypa, hún andar, sem kemur í veg fyrir myglu, og hún er létt, einangrandi og eldþolin.

Hampurinn náði sér vel á strik og sumar plönturnar náðu 130 cm hæð, þrátt fyrir kuldakast og mikinn þurrk.

Svo er það allur textíllinn sem er hægt að gera fyrir föt, segl og reipi,“ segir Oddný. „Það er líka hægt að vinna etanóleldsneyti úr hampi og nú þegar er farið að vinna rafhlöður úr hampi.

Síðast en alls ekki síst er hægt að framleiða matvæli fyrir menn og dýr úr fræjunum og nýta hrat og hampinn sjálfan sem skepnufóður og hakka hann í undirburð,“ segir Oddný. „Síðastliðin fimm ár eða svo hafa hampfræ, hampolía og hampprótín fengist í matvöruverslunum hér á landi og olían sem vinnst úr fræjunum er notuð í ýmiss konar snyrtivörur.“

Fæðubótarefni sem getur gagnast mörgum

Tveir af þekktustu kannabínóðum (e. cannabinoids) hampplöntunnar eru THC og CBD. THC er mikilvægasti kannabínóðinn þegar kemur að vímuáhrifum, en hann hefur einnig mikla lyfjavirkni. CBD veldur hins vegar ekki vímu og hefur vakið mikla athygi undanfarið því hann virðist gagnast vel við róa taugakerfið og slá á ýmsa verki og bólgur. Enn sem komið er skortir þó frekari rannsóknir á gagnsemi CBD, meðal annars vegna lagalegra hamla sem hafa verið til staðar og gert þær erfiðar.

„Plönturnar okkar innihalda innan við 0,2% af THC, sem er hámarksmagnið sem Evrópusambandið leyfir, svo það er ekki hægt að komast í vímu af þeim,“ segir Oddný. „Þær innihalda um 3-6% af CBD svo það er hægt að framleiða CBD olíu úr þeim, en hagkvæmara væri að nota yrki þar sem CBD hlutfallið er mun hærra, til dæmis 15-20%.

Hampur býður upp á mikla möguleika og hann er umhverfisvænn. Hér sjást stönglarnir, kjötið og trefjarnar fjölhæfu.

CBD er gagnlegt fæðubótarefni sem virðist stilla líkamann af á ýmsan hátt. Það hefur meðal annars komið að gagni við að minnka verkjalyfjanotkun fólks og það er líka vel þekkt að CBD vinni gegn flogaveikiköstum,“ segir Oddný. „Það er sársaukafullt að vita af öllum þessum kostum og horfa upp á fólk þjást að óþörfu því það hefur ekki aðgang að einhverju sem gæti bæði hjálpað því og dregið úr notkun á lyfjum sem hafa margvíslegar aukaverkanir.“

Oddný er nú komin í stjórn Hampfélagsins og stefnt er að því að vinna skipulega að því að greiða leið hampsins. „Ráðstefnan „Hampur fyrir framtíðina“ í byrjun mánaðarins var á vegum þessa hóps,“ segir Oddný. „Á hana mættu um 300 manns og það þurfti stöðugt að bæta við fleiri stólum. Það er augljóslega mikill og vaxandi áhugi á hampinum og við höfum varla undan við að svara fyrirspurnum frá einstaklingum og fyrirtækjum. En til þess var leikurinn gerður.“


Hægt er að fylgjast með starfi Hampfélagsins á Facebook-síðu félagsins: www.facebook.com/hampfelagid.