Fatahönnuðurinn Ýr Þrastardóttir hefur unnið að heldur betur áhugaverðu verkefni undanfarið þar sem hún nýtir jogginggalla, einkennisbúning heimsfaraldursins, til að glæða hefðbundna gönguskó lífi. Fólki býðst að koma með jogginggallana sína og endurnýta þá til að gera öðruvísi og skemmtilega skó.

„Auglýsingastofan Peel hafði samband við mig um miðjan maí með þetta verkefni. Ég átti frekar erfitt með að skilja nákvæmlega hvað átti að gera þar sem hugmyndin er óneitanlega frumleg og skrýtin.“

Úr því hófst rannsóknarvinna um hvernig framleiðslunni ætti að vera háttað.

„Stofan vildi reyna eftir fremsta megni að vinna þetta alfarið hér heima en því miður er ekki hægt að gera skó frá grunni hérna svo úr varð að velja erlendan skóframleiðanda. Fyrir valinu varð að vinna með framleiðanda sem gerir 100% vegan gönguskó svo að verkefnið mætir ítrustu kröfum um umhverfissjónarmið,“ útskýrir Ýr.

Skemmtilegt verkefni

Því fær fólk tækifæri til að ganga upp á fjöll úr skóm sem eru úr endurnýttu efni og sömuleiðis áberandi öðruvísi en venjulegir gönguskór.

„Verkefnið er hluti af markaðsherferð Íslandsstofu sem ætlað er að lokka ferðamenn til landsins. Myndband, með frumsömdu lagi tónlistarmannsins Ásgeirs Orra Ásgeirssonar, Sweatpant Boots, í flutningi rapparans Rögnu Kjartansdóttur sem er einnig þekkt sem Cell 7, er svo hluti af verkefninu, til að ýta undir áhuga ferðamanna.“

Ýr segir það hafa verið frábært að hafa fengið þetta tækifæri og gott að sjá að hönnun með fókus á endurnýtingu og sjálfbærni hafi fengið að leika svona stórt hlutverk í herferðinni.

„Þetta er mjög táknræn pæling. En ég held að það hafi einmitt verið pælingin hjá auglýsingastofunni að kryfja einkenni faraldursins og þá kom þessi hugmynd með joggingbuxurnar, því fólk er búið að vera á sófanum heima undanfarið ár eða jafnvel lengur. Það er einmitt verið að hvetja fólk til þess að fara úr þessum buxum og ferðast,“ segir hún.

Ánægðir ferðamenn með skóna sína. Mynd/aðsend

Forvitnir ferðamenn

Hún segir ferlið vera þannig að hún klippir niður buxurnar og teiknar svo upp snið af tungu, ökkla, hliðum og tá.

„Þessi snið eru svo saumuð saman og gengið frá endum í iðnaðarsaumavél. Því næst er gert ráð fyrir reimum og saumaðar á framstykkið teygjufestingar fyrir þær. Ég handsauma svo tunguna og ökklastykki á skóinn og í lokin fara skórnir í gegnum skóvél þar sem allt stykkið er fest niður framan á skóinn með leðurþræði. Þá eru skórnir tilbúnir í göngu,“ útskýrir Ýr.

Hún segir verkefnið hafa gengið vonum framar, færri hafi fengið skó en vildu.

„Við þurftum að setja upp plan um tíma og vinnu og það varð þannig að ég get tekið á móti tveimur ferðamönnum á dag. Þeir koma með buxurnar til mín og fá skóna afhenta daginn eftir. Svo eru líka ferðamenn að forvitnast og ég hef verið svolítið eins og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn hérna á Skólavörðustíg. Þetta er auðvitað mjög vinsæl gata og skórnir í glugganum grípa athygli og vekja forvitni ferðamanna.“

Langur biðlisti

Eru þetta fyrst og fremst túristar sem eru að koma?

„Já, þetta eru 90 prósent ferðamenn sem koma. Einstaka forvitnir Íslendingar kíkja við,“ segir Ýr sem fékk nýútskrifaðan fatahönnuð, Sögu Sif Gísladóttur, til þess að aðstoða sig við verkefnið því það fari mikill tími í að spjalla við ferðamenn. Þá gangi stundum hægar að sauma á meðan.

Skórnir eru ferðamönnunum að kostnaðarlausu í samstarfi við Vill’s Vegan skó.

„Það eru 100 prósent vegan skór til að ýta undir sjálfbærni verkefnisins. Þeir ferðamenn sem skráðu sig fyrst á lista urðu fyrir valinu. Mér skilst að það séu yfir tvö þúsund manns á biðlista, en það var hægt að skrá sig þar ef einhver komst ekki að sækja skóna sína,“ segir Ýr og bætir svo við: „Endurnýtingin er aðalmarkmið herferðarinnar. Að glæða gömlu buxurnar nýju lífi og nýta í eitthvað skemmtilegt.“

Joggingbuxurnar eru í ólíkum stíl og litum.Mynd/Aðsend
Verkefnið er hluti af Inspired by Iceland herferð Íslandsstofu. Mynd/Aðsend