Berglindi er margt til lista lagt, ekki bara þegar bakstur og matargerð er annars vegar heldur öllu því sem henni dettur í hug að taka sér fyrir hendur. „Ég hef brasað í eldhúsinu síðan ég man eftir mér og byrjaði með www.gotteri.is sem lítið áhugablogg um kökur og kökuskreytingar í hjáverkum þar sem ég er forfallinn áhugabakari. Með tíð og tíma þróaðist bloggið yfir í almennt matarblogg og nú er það matar- og ævintýrablogg þar sem allt snýst um mat, kökur, matarupplifun, veislur, ferðalög og ýmiss konar ævintýri. Það má því í rauninni segja að ég hafi sameinað ástríðuna og áhugamálin á einum stað þar sem ég leyfi fólki að fylgjast með og fá hugmyndir,“ segir hún. Berglind er með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá HR og hefur unnið við mannauðsmál og verkefnastýringu í um 20 ár og ávallt verið með bloggið á hliðarlínunni. Fyrir rúmu ári ákvað hún hins vegar að gefa því hug sinn allan og prófa að vinna aðeins fyrir sjálfa sig. Þrjár bækur „Úr varð að ég var að klára að skrifa mína þriðju matreiðslubók, Saumaklúbbinn, og á því ferðalagi lærði ég allt til þess að geta séð sjálf um bókina frá A-Ö, uppskriftagerð, ljósmyndir, hönnun & umbrot ásamt útgáfu. Þetta verkefni er því búið að fara með mig í allar áttir og kenna mér ansi margt nýtt og svo skulum við ekki gleyma markaðssetningunni sem nú stendur yfir. Ég hef sjálf þurft að sjá um slíkt og verður að segjast að það sé líka búinn að vera góður skóli, sett var upp netverslun á heimasíðunni minni og ýmis tæki og tól nýtt til þess að geta kynnt bókina fyrir sem flestum.“ Saumaklúbburinn er alhliða uppskriftabók með fjölbreyttum uppskriftum. Hún er yfir 240 blaðsíður og uppskriftirnar eru yfir 140 talsins! Efnið hefði klárlega verið nægilegt fyrir 2–3 bækur svo lesendur ættu að hafa úr nægu að velja. Það eru uppskriftir að alls kyns salötum, ostagóðgæti, brauðréttum, snittum, aðalréttum, smáréttum, kökum og eftirréttum ásamt því sem tíu fullbúin heimboð eru sett saman frá A-Ö en vinkonur Berglindar tóku þátt í þeim kafla bókarinnar.

Glæsileg súkkulaðikaka sem Berglind bakaði.

Guðdómleg súkkulaðikaka

Á jólakakan sem þú bakaðir fyrir lesendur Fréttablaðsins einhverja sögu? „Ég reyni alltaf að gera eina nýja köku fyrir hver jól/áramót þar sem það er svo gaman að koma með nýjungar. Súkkulaðikökur eru alltaf vinsælar og gaman að koma með nýstárlegar útfærslur af slíkum. Ég hugsa að ég gæti bakað endalaust af súkkulaðikökum með mismunandi kremi eða fyllingum. Þessi hér er dásamleg, botnarnir með sterku súkkulaðibragði sem kaffið nær fram í þeim, blautir í sér og mokkakremið hreint út sagt guðdómlegt og mikilvægt að hafa nóg af því á milli botnanna og á toppnum, því lítið fer fyrir því á hliðunum þegar maður vill ná fram þessu útliti. Sykraðar rósmaríngreinar eru síðan alveg til að toppa annars náttúrulegt útlit kökunnar og gera hana svo hátíðlega og fallega.“

Ilmurinn af greninu og jólaljósin

Aðspurð svarar Berglind að það sé mismikið haft fyrir jólunum á hennar heimili. „Það er bara misjafnt og fer svolítið eftir þeim tíma sem við höfum til undirbúnings hverju sinni. Jólin koma alveg, hvort sem allt er hreint, búið að skreyta hverja einustu hillu eða ekki. Ef ég hef tíma nostra ég meira við bakstur og skreytingar, en ef ég hef hann ekki er ég ekki að stressa mig óþarflega heldur bara kaupi tilbúið deig, skelli á plötu til að fá góða lykt í húsið og dimmi aðeins ljósin og fer bara í hreingerningar þegar sólin fer að skína.“ Berglind er á því að jólin séu einn besti tími ársins og það sé margt skemmtilegt við þau. „Jólaljósin, grenilyktin, kertaljósin, kósí fjölskyldustundirnar, spil, púsl, góður matur, og já, var ég búin að segja góður matur.“

Elskar jólin og glassúrinn úti þegar hann fer út um allt

„Ég elska jólin og allt dúllerí í kringum þau. Jólin eru líka svolítið tími barnanna, finnst mér, svo gaman að sjá spenninginn hjá stelpunum mínum þegar jólasveinninn hefur komið við í glugganum með eitthvað í skóinn, þegar allt fer út um allt í glassúr við piparkökuskreytingar, allir á náttfötunum fram eftir degi, jafnvel allan daginn, og ég gæti eflaust talið endalaust upp. Ég verð samt að segja að jólabarnið í mér er ánægðast ef það snjóar í kringum hátíðirnar, það verður bara allt svo hvítt, bjart og fallegt og síðan er auðvitað dásamlegt að komast út í snjóinn að leika sér inni á milli þess sem maður liggur á meltunni eða dúllast inni. Ég elska að gera risa snjókarla, snjóhús og allt þar á milli og get hamast úti með stelpunum mínum tímunum saman í slíku og mér finnst mikilvægt að varðveita barnið í sér á slíkum stundum.“

Heim með risastóran einhyrningakút

Að sögn Berglindar eru ekki margar fastar jólahefðir sem fjölskyldan heldur í fyrir utan það að maturinn á aðfangadag er borinn á borð þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin klukkan sex. „Við bökum og skreytum ávallt piparkökur, gerum aðventukrans en annars erum við bara nokkuð sveigjanleg með annað.“ Það hefur oft heillað að vera erlendis yfir jólin. „Við höfum verið erlendis yfir jól og áramót nokkrum sinnum og þá fjúka allar hefðir. Fyrir tveimur árum vorum við til dæmis með vinum okkar í Taílandi yfir jólin og enginn íslenskur matur né pakkar teknir með. Við fengum taílenskan kokk til þess að elda hátíðlega taílenska veislu á meðan við fórum öll á markaðinn með 300 baht, sem er um 1.000 krónur íslenskar, á mann þar sem við fundum jólagjöf fyrir leynivininn okkar. Við vorum 15 talsins og höfðum sett öll nöfnin í pott og dregið eitt nafn sem við ein vissum hver var og þurftum að finna gjöf fyrir. Almáttugur minn hvað það var mikið pískrað og hlegið í þessari markaðsferð, krakkarnir voru þvílíkt spennt að velja gjafir og tölum nú ekki um þá aðila sem þurftu að koma sér heim með risastóran uppblásinn einhyrningakút eða annað slíkt og síðan var ansi skrautleg innpökkun á þessum gjöfum þar sem lítið var um jólapappírinn,“ segir Berglind og hlær dátt. „Eftir matinn áttum við síðan kósístund og fundum út hver leynivinurinn okkar var og krakkarnir þurftu sko sannarlega ekkert meira og elskuðu þessi jól.“

Jólasúkkulaðiterta með mokkakremi

Kökubotnar

225 g hveiti

330 g sykur

80 g Cadbury bökunarkakó

2 tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

1 tsk. salt

2 egg

2 tsk. vanilludropar

80 ml matarolía

220 ml súrmjólk

200 ml sterkt, heitt, uppáhellt

Java Mokka kaffi frá Te & kaffi

Hitið ofninn í 170 °C. Smyrjið 3x15 kökuform vel með smjöri og sigtið bökunarkakó yfir, klippið einnig bökunarpappír í botninn. Setjið öll þurrefnin í hrærivélarskálina (sigtið bökunarkakóið saman við). Setjið næst egg, vanilludropa, matarolíu og súrmjólk saman í skál og pískið saman. Hellið heitu kaffinu saman við eggjablönduna í mjórri bunu og hrærið vel í á meðan. Hellið að lokum allri eggjablöndunni í hrærivélarskálina, blandið saman við þurrefnin og skafið niður þar til þunnt og slétt deig hefur myndast. Skiptið jafnt á milli formanna og bakið í 30–35 mínútur, eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum en ekki blautu deigi.

Mokkakrem

190 g smjör við stofuhita

500 g flórsykur

2 tsk. vanilludropar

5 msk. sterkt uppáhellt Java Mokka kaffi frá Te & kaffi (kælt)

Hrærið öllu saman við meðalháan hraða í nokkrar mínútur þar til létt, ljósbrúnt krem hefur myndast, skafið niður á milli.

Jólatré

2–3 pokar af rósmaríngreinum

120 ml vatn

100 g sykur (+ um 200 til að velta upp úr)

Sjóðið saman sykur og vatn við meðalháan hita þar til sykurinn er uppleystur. Veltið rósmaríngreinum upp úr sykurleginum, hristið eins mikið af vökvanum af og þið getið og leggið á bökunarpappír í um klukkustund. Hellið þá um 200 g af sykri í skál og veltið sykurlegnum greinunum upp úr sykrinum og hristið af eins og þið getið, leggið á nýjan bökunarpappír og leyfið að þorna í að minnsta kosti klukkustund áður en þið skreytið kökuna með þeim.

Samsetning

Setjið kökubotn á disk og smyrjið um 1 cm þykku lagi af kremi ofan á hann. Leggið næsta botn ofan á og endurtakið leikinn. Að lokum fer þriðji botninn ofan á og kakan er hjúpuð þunnt á hliðunum og með um 1 cm þykku lagi á toppnum.Sléttið næst toppinn og skafið síðan vel af hliðunum með rökum spaða til að fá „naked cake“ útlit á kökuna. Það fer smá krem aftur upp fyrir kantinn en það gefur kökunni smá „rustic“ útlit svo endilega leyfið því bara að vera þannig í stað þess að slétta alveg.Kælið kökuna svo kremið stífni vel og skreytið síðan með rósmarín jólatrjám og bindið brúnan bandspotta um kökuna miðja.