Nýr Opal hannaður í samstarfi við listamanninn Odee og Nóa Síríus til styrktar einstökum börnum er nú kominn í verslanir í takmörkuðu magni.

„Ég er búinn að vera í vöruþróun með Nóa Síríus frá því október í fyrra,“ segir Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson í samtali við Ísland vaknar á K100 í morgun, sem sjálfur er foreldri einstaks barns.

Pakkningarnar eru einstaklega skemmtilegar og litríkar í útliti. „Þetta er í rauninni bara listaverk,“ segir Odee um hönnunina.

„Við erum rosalega þakklát Nóa og Odee að styrkja okkur með sölu á þessum einstaka Opal,“ segir Ágúst og bætir við þannig geta þau þjónustað fjölskyldur einstakra barna, segir Ágúst Kristmann frá Einstökum börnum.

Aðspurður segir Ágúst einstök börn vera börn sem eru með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni en rúmlega 500 fjölskyldur fá stuðning frá félaginu.

Opalinn er bæði sykurlaus og vegan, „hann er ekki of súr en ekki of sætur,“ segir Kristín um bragðið á opalnum.

„Venjulega eru þetta fyrirtæki eða stofnanir fá listamannanna til borðsins, en nú er það myndlistin sem er að leiða saman hesta að þessu verkefni, upplýsir Odee í samtali við Fréttablaðið og bætir við að það hafi gefið honum ákveðið frelsi til að hanna umbúðirnar og bragðið.

Þá segist Odee hafa eingöngu fengið gleðilegar og góðar móttökur við verkefninu í heild sinni, „það er allir mjög pepp fyrir þessu,“ segir Odee glaður í bragði og að verkefnið virðist vekja góðar tilfinningar hjá fólki, sem er skemmtileg viðbót við myndlistina.