Nýtt sýningarsvæði Íslands á alþjóðlegu listahátíðinni Feneyjatvíæringnum var opnaður í dag af Lilju Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra. Nýi íslenski skálinn stendur nú á aðalsvæði hátíðarinnar.
„Með tilfærslu íslenska skálans skapast ótvíræð tækifæri til að kynna betur íslenska myndlist en í kringum sex hundruð þúsund gestir heimsækja að jafnaði það svæðið sem skálinn stendur nú á,“ segir í fréttatilkynningu frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Hátíðin stendur fram í nóvember en ráðuneytið áætlar að gestafjöldi í íslenska skálanum gæti nær tuttugufaldast miðað við síðustu ár.
Tvíæringurinn hefur verið haldinn í Feneyjum annað hvert ár, með fáum undantekningum, síðan 1895. 213 listamenn frá 58 löndum taka þátt í hátíðinni í ár. Ísland tók fyrst þátt árið 1960 og voru Jóhannes Sveinsson Kjarval og Ásmundur Sveinsson fulltrúar.

Myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson er fulltrúi Íslands á hátíðinni í ár en hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018. Verk hans á tvíæringnum heitir Ævarandi hreyfing og er „fjölskynjunarskúlptur, myndbandsinnsetning á tveimur sex metra flekum,“ samkvæmt tilkynningunni.
„Flutningur íslenska skálans á aðalsvæði hátíðarinnar er liður í stefnu stjórnvalda um að beina sjónum að frekari tækifærum til vaxtar á sviði menningar og lista,“ segir Lilja.
„Ég óska Sigurði og teymi hans innilega til hamingju með þennan merkisáfanga á ferlinum og þakka honum fyrir hans framlag í þágu íslenskrar menningar.“
Verkefnið er unnið í samstarfi við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Íslandsstofu.