Í dag verður heimasíðan Tónatal opnuð en á henni gefst tónlistarfólki færi á að auka þekkingu sína á bransanum, tækifærum og réttindum sínum. Tónatal er samstarfsverkefni ÚTÓN, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur, STEF, SFH og Íslandsstofu. Á síðunni er ýmislegt fræðsluefni í formi hlaðvarpa og stuttra myndbanda.

Logi Pedro Stefánsson og tónlistarkonan GDRN, Guðrún Ýr Eyfjörð, fræða svo áhorfendur um ýmsar hliðar tónlistabransans í liðnum Snöggeldað.

„Bransinn í hverju landi fyrir sig er jafn fjölbreytilegur og löndin sjálf. Það eru ólík hugtök sem eru samt í sumum tilvikum svipuð milli landa. Þannig að ÚTÓN vildi taka saman í kynningarmyndböndum þau hugtök sem eru notuð á Íslandi og pælingarnar á bak við þau. Hvað er útgáfusamningur? Hvað eru útgáfuréttindi? Mér fannst þetta skemmtilegt verkefni og einstaklega góð hugmynd,“ segir Logi Pedro.

Ungt fólk snuðað

Logi segist hafa heyrt af ungu tónlistarfólki sem hefur gert samninga sem það sér eftir að hafa gert. Þau hafi einfaldlega ekki skilið samninginn nógu vel.

„Þannig að það er mikilvægt að negla þetta inn fyrir næstu kynslóðir, hvað það er sem raunverulega er í gangi þegar verið er að skrifa undir plötusamning. Það er í raun frekar nýlegt að hér á landi sé einhver plötuútgáfa af viti. Þetta var nokkuð öðruvísi þegar ég byrjaði á sínum tíma að gefa út. Umhverfið var annað. Maður hefur verið að læra með árunum hvað allt þýðir og hvernig þetta gengur fyrir sig,“ segir hann.

Logi segist hafa sterkar skoðanir á því hvernig bransinn á Íslandi eigi að vera.

„Ég hef líka sterkar skoðanir á þeim samningum sem ungum listamönnum eru boðnir. Margir eru lélegir og því finnst mér mikilvægt að vera með eitthvert efni og umræðu um þetta.“

Miðlar þekkingu sinni

Logi hefur í gegnum tíðina verið duglegur að miðla þekkingu sinni á bransanum til yngra tónlistarfólks, hann var meðal leiðbeinenda á námskeiðinu Snælda sem haldið var á vegum 101derland og LFS útgáfu. Það fór fram annað árið í röð núna í sumar en á því geta stúlkur á aldrinum 16-20 ára lært að skapa og taka upp tónlist.

„Á því fórum við alveg aðeins út í það hvernig plötubransinn gengur svo fyrir sig, en megináherslan var þó á listrænu hliðina,“ segir hann.

LFS útgáfa hefur gefið út margar af vinsælustu plötum seinustu ára, þar á meðal efni frá Flóna, Joey Christ, Sturlu Atlas og Young Karin.

„Þannig að ég hef verið dálítið í því núna undanfarið, en það er kannski meira af áhuga en eitthvað annað. Þú ferð ekki beint í plötuútgáfu hérna á Íslandi til þess að græða eitthvað svakalega á því, þetta er meira gert af ástríðu.“

Síðustu tvö árin hefur hann svo einnig einbeitt sér að uppgangi Útvarps 101 ásamt því að gera sína eigin tónlist. Útvarp 101 framleiðir hlaðvarpsþætti fyrir Tónatal.

Alþjóðlegt starf

„Flest lönd sem eru með einhvern tónlistarbransa af viti eru með útflutningsstofur á borð við ÚTÓN. Þetta er nokkurs konar höfn fyrir tónlistarfólk til að leita í þegar það kemur að vera í músík. Þetta er orðið svo alþjóðlegt starf. ÚTÓN er ráðgefandi stofnun,“ segir hann.

Síðar í mánuðinum gefur Logi út sína aðra sólóplötu, en hún hefur hlotið heitið Undir bláu tungli.

„Platan var tekin upp að hluta til hérna í Reykjavík og svo líka í Síerra Leóne. Ég fór þangað í smá upptökuverkefni. Í seinna skiptið sem ég fór var ég byrjaður að taka upp þessa plötu. Ég er búinn að vera að dunda mér við það síðustu tvö árin. Svo þegar heimsfaraldurinn skall á þá fannst mér bara vera kominn tími á að klára hana,“ segir Logi Pedro.

Tónatal verður opnað í dag á slóðinni tonatal.is. Platan Undir bláu tungli kemur út 21. ágúst.