Tökur á nýjustu Indiana Jones myndinni munu hefjast í næstu viku en þetta hefur Deadline eftir heimildar­mönnum sem eru tengdir myndinni. Um er að ræða fimmtu kvik­myndina í röðinni en sögu­þráður, og nafn, myndarinnar hefur ekki enn verið opin­beraður.

Að því er kemur fram í frétt Deadline um málið hafa miklar vanga­veltur verið uppi um tökur á myndinni, sem stefnt er á að komi út á næsta sumar, en nú virðist stað­fest að tökurnar muni hefjast á allra næstu dögum í Bret­landi.

Myndin muni fjalla um draug „Bleiku konunnar“

Þrátt fyrir að ekkert hafi verið gefið upp um sögu­þráð myndarinnar hafa ýmsir orð­rómar verið á kreiki, til að mynda að myndin muni tengjast geim­kapp­hlaupinu á sjöunda ára­tugnum. Breskir miðlar eru þó með aðrar kenningar og hafa það eftir heimildar­mönnum að myndin verði tekin upp í Bam­bur­gh drauga­kastalanum í Nort­hum­berland.

Þá segir að myndin muni byggja á sögunni um Bleiku konuna (e. Pink Lady) sem er sögð hafa fleygt sér fram af turni kastalans eftir að elsk­hugi hennar yfir­gaf hana og allar götur síðan hefur hún gengið aftur í kastalanum.

„Það hljómar kjána­lega en áður en tökur hafa jafn­vel hafist erum við að­eins að tala um drauginn. Þetta er mjög hroll­vekjandi staður,“ sagði heimildar­maður sem þekkir til málsins við The Sun en kastallinn er talinn af sumum vera sá staður á Bret­landi þar sem er hvað mestur drauga­gangur.

Pheobe Waller Bridge og Mads Mikkelsen fara með hlutverk

Líkt og áður segir er um að ræða fimmtu kvik­myndina í röðinni um forn­leifa­fræðinginn Indiana Jones en fyrsta myndin, Rai­ders of the Lost Ark, kom út fyrir 40 árum. Fjórða myndin í röðinni, Kingdom of the Crys­tal Skull, kom síðan út ní­tján árum eftir þá þriðju, árið 2008.

Har­ri­son Ford mun endur­taka leikinn sem ævin­týra­hetjan sjálf auk þess sem stór­stjörnur á borð við Pheobe Waller Brid­ge og Ís­lands­vinurinn Mads Mikkel­sen munu fara með hlut­verk í myndinni. Frum­sýningar­dagur er á­ætlaður þann 29. júlí 2022.

Fjórar myndir hafa þegar komið út um ævintýri fornleifafræðingsins Indiana Jones en fyrsta myndin kom út fyrir fjórum áratugum.