Fyrsta frum­sýning Borgar­leik­hússins á nýju leik­ári er á laugar­dag þegar leik­húsið frum­sýnir ein­leikinn Á eigin vegum, byggðan á sam­nefndri skáld­sögu Kristínar Steins­dóttur. Sig­rún Edda Björns­dóttir fer með hlut­verk ekkjunnar Sig­þrúðar sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir en um er að ræða fyrsta ein­leik hennar á fjöru­tíu ára leik­ferli.

„Kristín Steins­dóttir er mjög vin­sæll höfundur og hefur vakið verð­skuldaða hrifningu les­enda. Kannski sér­stak­lega kvenna sem eru nú sá hópur sem er hvað dug­legastur að sækja leik­hús, þannig að þetta fer vel saman. Ég held að les­endur sem hafa hrifist af þessari bók fái tals­vert fyrir peninginn við að sjá sýninguna því hún segir vonandi ekki bara sögu konunnar, eins og hún birtist í bókinni, heldur sprengir hún inn í fleiri víddir í skynjun og upp­lifun á­horf­andans,“ segir Stefán Jóns­son, leik­stjóri sýningarinnar.

Maríanna Clara Lúthers­dóttir og Salka Guð­munds­dóttir unnu leik­gerðina upp úr skáld­sögu Kristínar Steins­dóttur. Að sögn Stefáns er það vanda­samt verk að að­laga bækur leik­sviðinu og telur hann Maríönnu og Sölku hafa tekist það vel að draga fram þá þætti sem hann hreifst af í skáld­sögu Kristínar Steins­dóttur.

„Það er mikið tekið að að­laga bækur sviði hjá okkur bók­mennta­þjóðinni. Það er vanda­samt verk og maður þarf í grunninn að gera sér grein fyrir þeirri stað­reynd að bók er eitt lista­verk, leik­gerðin er annað lista­verk og leik­sýningin þriðja lista­verkið.“

Ég held að les­endur sem hafa hrifist af þessari bók fái tals­vert fyrir peninginn við að sjá sýninguna.

Ó­sýni­lega konan

Eins og áður segir leikur Sig­rún Edda Sig­þrúði, eldri konu sem stundar blað­burð, garð­yrkju og jarðar­farir af miklum móð. Spurður um hvers konar mann­eskju Sig­þrúður hafi að geyma segir Stefán:

„Ég hef lýst henni svona sem ó­sýni­legu konunni. Hún er manneskja sem fæðist inn í þennan heim við erfiðar að­stæður. Móðir hennar deyr við fæðingu þannig að hún kynnist henni aldrei en það verður henni til happs að hún á fóstru í sínu litla koti norður í landi. Þessi fóstra veitir henni þá ást og at­læti í frum­bernsku sem skiptir hvert barn höfuð­máli ef það á annað borð á að komast af.“

Sig­þrúður er manneskja sem gefst ekki upp þótt á móti blási en gerir sér litlar vonir enda hefur lífið kennt henni að slíkt hafi lítið upp á sig. En hún býr að ríku innra lífi, í­myndunar­afli og húmor.

„And­streymið er mikið frá fyrstu tíð. Hún er fötluð, er með það sem hún kallar sels­hreifa, sam­vaxna fingur á annarri hendi. Fyrir hvern sem er, ég tala nú ekki um í sveit fyrir mörgum ára­tugum, þá er þetta eitt­hvað sem var til­valið til ein­eltis og til þess að gera við­komandi minni máttar. Hún hrökklast frá námi sem jók ekki fram­gang hennar í lífinu,“ segir Stefán.

Sig­þrúður verður ó­létt sem táningur eftir ungan frænda bóndans á bænum, hún missir barnið, faðirinn horfinn á braut. Stuttu síðar flyst hún í ná­lægt sjávar­pláss og tekur saman við mann, þótt ástin sé ekki bein­línis brennandi. Full­orðin flytja þau á mölina í leit að betra lífi, giftast og Sig­þrúði dreymir um annað barn en ekki verður af því. Eigin­maðurinn missir þróttinn með tímanum og deyr.

„Hún fer að bera út blöð og lifa meira lífinu, verður svona ein af þessum ein­stak­lingum sem ég per­sónu­lega hef haft mikinn á­huga á að fylgjast með í borgar­lands­laginu. Þetta fólk sem er að fá sér kaffi í bankanum, situr og les blöðin á Borgar­bóka­safninu, fer í jarðar­farir hjá ó­kunnugu fólki sér til stundargamans. Þetta er al­þýðu­kona sem berst á móti straumnum alla tíð. Hún á sér samt draum og það er nú kannski það sem er megin­þráður verksins, bar­áttan felst í því að hún þráir að finna rætur sínar,“ segir Stefán.

Á eigin vegum er fyrsti einleikur Sigrúnar Eddu Björnsdóttur á fjörutíu ára ferli.
Mynd/Grímur Bjarnason

Hokin af reynslu

Stefán segir það hafa verið mjög gefandi að vinna með Sig­rúnu Eddu Björns­dóttur.

„Hún er náttúr­lega hokin af reynslu, fagnar 40 ára leik­af­mæli um þessar mundir og er að leika í sínum fyrsta ein­leik. Hún ein­henti sér í verk­efnið af fullum þunga og tók ríkan þátt í þróun leik­gerðarinnar. Svo það hefur bara verið yndis­legt að vinna með henni. Hún er mjög fram­leiðin sem leik­kona, býr yfir góðu inn­sæi og tækni­legri færni.“

Að sýningunni koma einnig Egill Sæ­björns­son sem vinnur leik­mynd og mynd­bönd, Sól­ey Stefáns­dóttir sem vinnur tón­list og hljóð­mynd, Stefanía Adolfs­dóttir sem gerði búninga og Pálmi Jóns­son sem sér um lýsingu.

„Þó að hún sé ein á sviðinu þá er hún með öfluga mót­leikara sem eru, ekki bara ég, heldur leik­myndin og ein­stök vörpunin sem Egill Sæ­björns­son sér um og stór­kost­leg tón­list sem Sól­ey Stefáns­dóttir hefur samið og Pálmi Jóns­son sem er með allt­um­lykjandi ljósin. Maður skynjar það enn sterkar þegar þú ert bara með einn leikara hvað öll þessi element spila stóran þátt og eru raun­veru­legir mót­leikarar leikarans,“ segir Stefán.