Haustið er sá tími sem uppskera sumarsins kemur í hús og margir matgæðingar vita fátt eftirsóknarverðara en að fá nýja, ferska íslenska uppskeru til að vinna með í eldhúsinu. „Ég veit ekkert betra en nýuppteknar kartöflur og að sjálfsögðu lífrænar, því þær eru mun bragðmeiri en þessar ólífrænu og ekki er verra ef maður ræktar þær sjálfur án tilbúins áburðar. Og ekki má gleyma grænkálinu sem er algjör snilld, ristað og borðað sem snakk,“ segir Kaja sem ætlar jafnframt að svipta hulunni af sínum uppáhaldshaustréttum.

Er einhver saga á bak við þennan rétt sem þú heldur mest upp á?

„Það má með sanni segja það. Mamma fór í enskuskóla til Englands þegar hún var ung og kynntist nýjum matarhefðum þar. Þar fékk hún kartöflur sem voru einstaklega góðar, svo góðar að hún hefur talað um þær í gegnum tíðina. Á einhverjum tímapunkti fórum við mæðgurnar að garfa í því hvernig þessar dásamlegu kartöflur voru eldaðar. Þegar uppskriftin var komin þá var hún tekin og dössuð eftir mínum smekk. Þessar kartöflur eru góðar með öllu og ekki síðri eintómar með smá salati. Ristað grænkál keypti ég stundum af Fjallkonunni á Selfossi þegar sú verslun var og hét og þá byrjaði maður að fikta í því og nú finnst mér best að búa til kasjúhnetusósu og dassa yfir og rista grænkálið,“ segir Kaja og tekur fram að matreiðslan breytist sjálfkrafa þegar haustið gengur í garð, þá víki grillmaturinn fyrir hinni hefðbundnu eldamennsku. Kaja á sér líka eina ósk, en hún myndi vilja sjá meira lífrænt í stórverslunum landsins og allra helst íslenskt. Kaja trúir því staðfastlega að við séum það sem við borðum.

Ristað grænkál með kasjúhnetusósu.

Ristað grænkál með kasjúhnetusósu

1 poki lífrænt grænkál frá Engi

Setjið grænkálið allt saman á ofnplötu með smjörpappír undir. Undirbúið síðan kasjúhnetusósuna.

Kasjúhnetusósa

100 g kasjúhnetur

1,5 msk. sítrónusafi frá Beutelsbacher

½ tsk. sjávarsalt

½ tsk. cayenne pipar

½ bolli lífræn ólífuolía

0,75 ml vatn

2 msk. næringarger

Byrjið á því að hita ofninn í 120°C. Allt hráefnið sett í blandara og blandað þar til að blandan verður að þykkri sósu. Sósunni síðan dreift yfir grænkálið á ofnplötunni og ofnplatan með grænkálinu í kasjúhnetusósunni sett í ofn og þetta bakað í um það bil 20-30 mínútur við 120°C, best að hafa ofninn á blæstri.

Uppáhaldskartöflurnar hennar Karenar líta vel út.

Uppáhaldskartöflur Kaju

1 poki lífrænar kartöflur frá Móður Jörð

1 lítri vatn

3 msk. salt

2 msk. Natali viðbit (lífrænt og vegan)

1 msk. Kaju grillkrydd (fæst í Frú Laugu og Matarbúri Kaju)

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Einn lítri af vatni settur í pott og þremur matskeiðum af salti stráð yfir og soðið saman. Suðan látin koma upp. Kartöflurnar eru skornar í tvennt og settar út í eftir að suðan er komin upp. Það á ekki að fullsjóða kartöflurnar, gott viðmið er að hafa þær rúmlega hálfsoðnar. Vatninu er síðan hellt af kartöflunum og þær settar í eldfast mót. Síðan er tvær matskeiðar af Natali viðbiti settar í eldfasta mótið og kartöflunum velt vel upp úr. Loks er einni matskeið af Kaju grillkryddi stráð yfir kartöflurnar og kartöflurnar í eldfasta mótinu settar inn í ofn við 180°C með blæstri og/eða grilli þar til kartöflurnar eru orðnar gullinbrúnar.

Karen notar nýuppteknar rauðar kartöflur.