Svo virðist vera sem að hinn nýi Sámur sé mættur til Dor­ritar Moussa­i­eff en hún birti mynd af hvolpinum á Insta­gram síðunni sinni. Dorrit staðfestir raunar í annarri færslu að hér sé kominn klónn af Sámi, gamla hundi hennar og Ólafs Ragnars Gríms­sonar.

Það vakti raunar mikla at­hygli í janúar síðast­liðnum þegar Ólafur til­kynnti að hann og Dor­rit hefðu kannað leiðir til að klóna gamla hundinn sinn sem lést í byrjun ársins, ellefu ára gamall. Dor­rit greindi frá því á Insta­gram í septem­ber að klónunar­ferlið væri hafið.

Frá­fall hins gamla hunds tók mjög á fyrir Dor­rit, sem tjáði sig opin­skátt um missinn og söknuðinn á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram. Hjónin settu sig í kjöl­farið í sam­band við banda­ríska klónunar­fyrir­tækið Via­Gen Pets. Eins og sjá má virðist nýi hvolpurinn hress.

„Samson er kominn er 750 grömm heilbrigður hamingjusamur og nærist vel,“ skrifar hún með færslunni. Þá tjáði Ólafur Ragnar sig einnig um hinn nýja hund á Twitter síðunni sinni.

Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot