Pabbi minn var óperusöngvari og ég er fædd á Íslandi en flutti út með fjölskyldunni þegar ég var pínulítil og bjó fyrst í Þýskalandi í fimm ár og svo í Bologna á Ítalíu í 25 ár,“ segir Ástríður. „Svo ég er ítölsk í mér en líka íslensk. Í Bologna fór ég í listaháskóla, lauk prófi þaðan 2013 og fór svo aftur í MA-nám og prófaði gegnum skólann að sýna á ýmsum stöðum. En svo fann ég að mig langaði að prófa að búa á Íslandi svo ég flutti til Íslands í fyrra og það var í fyrsta sinn sem ég hef búið hér.“

Ástríður rétt náði til Íslands áður en COVID-19 skall á Ítalíu í fyrra og faraldurinn hefur líka sett svip sinn á líf hennar hér. „Þetta hefur verið mjög skrýtið, ég er nýflutt og rétt byrjuð að kynnast fólki og venjast umhverfinu á Íslandi og þá var öllu bara lokað hér líka. En það hafði sína kosti, ég málaði frekar mikið á þessu tímabili og þess vegna er ég komin með fullt af listaverkum sem ég ætla að sýna í Máli og menningu sem verður opnuð í byrjun mars.“

Listaverkin eru olíumálverk, syrpa verka sem hún kallar „Panneggio“ sem er orðið fyrir aðferðina sem málarameistarar eins og Leonardo da Vinci og Michelangelo notuðu í gamla daga til að mála efni og fellingar og brot í efni, kjóla og veggtjöld. Ástríður sækir innblástur í sirkuslistir og einkum þó silki. „Ég var að æfa sirkustækni í silki þar sem þú ert með tvær slæður sem eru fastar við loftið og leikur í þeim alls konar listir með líkamanum,“ segir hún og bætir við: „Ég hef mikið verið að skoða hvernig líkaminn talar við og aðlagast umhverfinu og því sem er í kringum hann og þetta byrjaði í raun og veru sem tilraun til að kanna hvernig líkaminn talaði við þessar slæður. En svo þróaðist hugmyndin, fyrst var ég að mála líkamann í samhengi við slæðurnar en svo hvarf líkaminn og slæðurnar voru einar eftir. Ég er mest núna að leika mér að silkinu sjálfu, nota ljós og bý til skúlptúra úr efninu eins og það sé leir og mála svo mynd af því. Þess vegna kalla ég sýninguna „Panneggio“ því ég er í rauninni að skoða fellingarnar en það er ekkert undir efninu svo þetta er eiginlega svolítið abstrakt.“

Ástríði líður vel á Íslandi en hún neitar því ekki að Ítalía eigi líka sterk ítök í henni. Hún talar íslenskuna mjög vel miðað við að hafa ekki búið hér nema í eitt ár. „Mig langar að ná að tala þannig að það heyrist ekkert að ég sé ekki alin hér upp. En ég á marga vini á Ítalíu og bræður mínir búa þar svo ég verð örugglega mikið þar líka. Það er gaman að geta búið á tveimur stöðum.“ Og myndlistin á hug hennar allan. „Oft sér fólk listina sem hálfgert hobbí, sérstaklega á Ítalíu, en það verður að taka hana alvarlega ef markmiðið er að fara alla leið, vera í þessu af lífi og sál. Og ég held að það sé meira svigrúm til að gera það á Íslandi en Ítalíu,“ segir listakonan að lokum.

Hægt er að fylgjast með Ástríði á astridurart.com og @astridurart á Instagram.