Þau Steinunn og Sæþór hafa átt og rekið Narfeyrarstofu frá árinu 2001. Veitingahúsið er eitt af glæsilegustu og farsælustu veitingahúsunum á Vesturlandi og margrómað fyrir vandaða og gæðamikla matargerð. Þarna hefur skapast hlýleg umgjörð þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Á neðri hæð hússins sem hýsir Narfeyrarstofu er einstakur kjallari sem Steinunn og Sæþór ákváðu að gera upp og stækka staðinn með stórfenglegri útkomu.

Narfeyrarstofa er í hjarta bæjarins í einstöku húsi sem á sér mikla sögu og því er virðingarvert að sjá hversu vel hefur verið hugsað um húsið og er viðhald til fyrirmyndar.

Einstök upplifun er að koma í kjallara Narfeyrarstofu en á veggjum eru gamlar hleðslur sem voru undir húsinu og svo blasir við þversnið af berginu undir þeim. Birtan er notaleg, áklæði stóla og bekkja í mjúkum litum, borðplötur úr grænleitum marmara, pússaðir veggir grámálaðir. Þetta er glæsileg viðbót hjá hjónunum í Narfeyrarstofu og til fyrirmyndar í alla staði.

Birtan er notaleg, áklæði stóla og bekkja í mjúkum litum, borðplötur úr grænleitum marmara, pússaðir veggir grámálaðir.

Endurbæturnar björguðu húsinu

Aðspurð segja Steinunn og Sæþór að verkið hafi verið viðamikið og heilmikil framkvæmd.

„Við mokuðum út yfir 200 tonnum af grjóti og jarðvegi. Elsta hleðslan sem blasir nú við þeim sem koma í kjallarann er frá því um 1800, því húsið sem nú stendur var byggt árið 1906 ofan á sökkul af eldra húsi. Aðrar hleðslur eru frá því húsið var byggt.“

Í raun hafi þessar endurbætur bjargað húsinu til framtíðar.

„Þær renndu undir það styrkari stoðum, því í framkvæmdunum kom í ljós að gömlu stoðirnar voru orðnar veikar. Þá dúaði húsið orðið leiðinlega mikið á miðhæðinni. Útveggirnir voru hins vegar traustir og högguðust ekki á meðan unnið var í kjallaranum.“

Á veggjum mætast gamlar hleðslur sem voru undir húsinu og svo blasir við þversnið af berginu undir þeim.

Unnið af heimamönnum

Að baki er sjö mánaða vinna við að kljúfa bergið, brjóta og moka, skjóta stoðum undir húsið, smíða, leggja dren og lagnir, steypa, pússa, mála og innrétta.

Verkið hófst 2. janúar og nú hafa Hólmarar eignast glæsilegan nýjan stað, vínstúku eða kokteilstofu, sem um leið er hluti af elsta veitingahúsinu í bænum.

Steinunn segir marga heimamenn hafa komið að verkinu.

„Verkið er að mestu unnið af iðnaðarmönnum í Stykkishólmi. Þá sá ÞB Borg um framkvæmdina og eru eigendur þess fyrirtækis pabbi og bróðir Sæþórs.“

Einnig kom að verkinu verkfræðingur og rafhönnuður, Karl Matthías Helgason, sem er bróðir Steinunnar.

„Við erum stolt af því að geta nýtt krafta heimamanna sem hafa sýnt okkur stuðning í öllu ferlinu en auðvitað fórum við líka sjálf í vinnugallann á milli þess sem við vorum að elda mat og bera hann fram. Það er svo gaman að taka þátt í verkinu af fullum krafti.

Barinn og borðin koma að mestu frá Fígaró og það er Hólmar bekkjarbróðir okkar sem á þann frábæra stað. Um smíði á bekkjum sáu GÁ húsgögn en ljós, borð og Gubi-stólar komu frá Lumex. Þá sá Berglind Berndsen innanhússarkitekt um hönnun á rýminu. Við gætum ekki verið henni þakklátari fyrir allt sem hún hefur gert fyrir okkur,“ segja hjónin að lokum, alsæl með útkomuna.