Í dag, laugardaginn 14. maí, verða flutt verk Ásbjargar Jónsdóttur á vegum 15:15 tónleikasyrpunnar í Breiðholtskirkju með yfirskriftinni Úr augum þér fiðrildi fljúga.
Á tónleikunum verða frumflutt þrjú ný verk eftir Ásbjörgu samin við ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur og Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur. Verkin eru fyrir rödd, saxófón og harmóniku. Flytjendur voru hluti af sköpunarferli og var efniviður meðal annars unninn út frá þeirra túlkun og upplifun af ljóðunum í bland við upplifun tónskáldsins.
Á tónleikunum verða einnig flutt tvö eldri verk Ásbjargar fyrir harmóniku og saxófón sem einnig voru samin út frá ljóðum, en það eru ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum og Þórarin Eldjárn.
Flytjendur á tónleikunum eru Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmónikuleikari, Heiða Árnadóttir söngkona og Sölvi Kolbeinsson saxófónleikari.