Nýtt kál er ótrúlega gott og margt hægt að matbúa með því. Hvernig væri að gera grænmetislasagna eða heimalagaðar kjötbollur með káljafningi? Þegar maður gerir grænmetislasagna má bæta í það ýmsu sem til er, líkt og tómötum, blómkáli eða spergilkáli, allt eftir smekk.

Grænmetislasagna með spínati

Mjög gott lasagna án kjöts. Bragðmikið og fínasta uppskrift til að nota sumaruppskeruna. Uppskriftin ætti að duga átta manns en einnig má nota afganga í nesti.

400 g spínat

300 g grænkál

500 g sveppir

400 g ricottaostur eða kotasæla

3 dl sýrður rjómi, 35%

½ dl mjólk

½ pottur fersk basilíka

1 msk. ferskt timían

½ tsk. chilli-flögur

Rifinn ostur

50 g rifinn parmesanostur

1 l tómatsósa, til dæmis marinara sem fæst tilbúin

12 lasagnablöð

Skolið spínatið og fjarlægið grófustu stilkana. Setjið í sjóðandi vatn í smástund en kælið síðan. Fjarlægið einnig grófu stilkana af grænkálinu og sjóðið það smástund í sama vatninu og spínatið í 2-3 mínútur. Kælið í köldu vatni.

Þerrið kálið með eldhúspappír og skerið það gróft niður.

Skerið sveppina í sneiðar og steikið þá á þurri pönnu með salti og pipar. Fyrst á háum hita en lækkið síðan niður. Setjið til hliðar.

Blandið saman ricotta, sýrðum rjóma, smátt skornum ferskum kryddjurtum og chilli-flögum. Bragðbætið með salti og pipar.

Smyrjið eldfast fat með olíu og dreifið þunnu lagi af marinara-sósu yfir. Leggið lasagnaplöturnar yfir sósuna. Setjið ricottablönduna þar ofan á, síðan tómatsósu og loks spínat og grænkál í jöfnu lagi. Þá er helmingnum af sveppunum dreift yfir. Aftur eru lasagnablöð lögð yfir allt fatið og byrjað upp á nýtt. Í lokin ættu að vera þrjú lög af lasagnaplötum og í lokin er sett tómatsósa og mikið af rifnum osti.

Setjið formið í 200°C heitan ofn og bakið í 40 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn og lasagnað farið að krauma.

Það má bera lasagna fram með góðu brauði og hrásalati.

Heimalagað hrásalat úr nýju íslensku grænmeti.

Gott hrásalat með lasagna

Þetta hrásalat hentar vel með bæði kjöti og fiski. Það er til dæmis mjög gott með svínarifjum eða grilluðu svínakjöti.

½ hvítkálshaus

1 msk. salt

2 gulrætur

3 dl sýrður rjómi

½ hvítlauksrif, rifið

1 tsk. hunang

2 msk. jómfrúarólífuolía

2 vorlaukar, smátt skornir

4 msk. blaðsteinselja, smátt skorin

1 msk. sítrónusafi

2 dropar tabasco-sósa

Salt og pipar

Skolið grænmetið og og skerið hvítkálið smátt, gjarnan með mandólíni eða ostaskera. Saltið og látið standa í 30 mínútur. Skolið kálið undir rennandi vatni og þerrið. Rífið gulrót með grófu rifjárni.

Blandið saman sýrðum rjóma, hvítlauk, hunangi, olíu vorlauk og steinselju í skál. Bragbætið með sítrónusafa, tabasco, salti og pipar. Blandið síðan kálinu og gulrótunum saman við.

Heimagerðar kjötbollur með brúnni sósu og sultu eru herramannsmatur. Ekki er verra að hafa káljafning líka með líkt og amma gerði í gamla daga.

Heimagerðar kjötbollur með káljafningi

Þetta er svona týpískur ömmumatur sem margir kannast við. Þegar nýtt hvítkál eða grænkál kom á haustin var jafnan búinn til jafningur. Káljafningur er mjög góður með steiktum kjötbollum. Þessi uppskrift ætti að duga fjórum.

400 g kjöthakk, hægt að nota það sem fólki finnst best

1 tsk. salt

¼ tsk. pipar

¼ tsk. múskat

¼ tsk. engifer

2 msk. kartöflumjöl

1½ dl vatn eða mjólk

Setjið allt í matvinnsluvél og hakkið þar til úr verður mjúkt kjötfars. Mótið bollur með matskeið og steikið í olíu og smjöri.

Brún sósa

4 msk. smjör

4 msk. hveiti

1 lítri kjötkraftur

Takið bollurnar frá meðan sósan er gerð. Setjið smjörið á pönnuna og síðan hveitið. Bakið upp með kjötkraftinum og bragðbætið með salti og pipar. Látið sósuna malla í 10-15 mínútur. Setjið bollurnar þá aftur í sósuna.

Káljafningur

700 g hvítkál

1 lítri vatn

2 tsk. smjör

4 msk. hveiti

4½ dl soð frá kálinu

2 dl mjólk

¼ tsk. múskat

Setjið kálið í sjóðandi saltað vatn. Látið sjóða í um það bil 15 mínútur eða þangað til kálið er orðið mjúkt. Bræðið smjör í öðrum potti og síðan hveiti. Bætið soðinu af kálinu saman við ásamt mjólkinni og bakið upp jafninginn. Bragðbætið með múskati, salti og pipar eða eftir smekk. Í lokin er kálið sett út í jafninginn.

Kjötbollurnar eru bornar fram í brúnu sósunni með nýjum kartöflum, káljafningi og rabarbarasultu. Ekta ömmumatur.