Sjálfs­eigna­stofnunin Unicode Consortium, sem sér­hæfir sig í sam­kóta (e. unicode) fyrir tölvu­kerfi, hefur gefið út 37 ný tjákn (e. emoji) sem munu birtast snjallsímum, tölvum og spjald­tölvum á næstunni.

Þar á meðal eru tjákn sem sýna ó­léttan karl­mann, ó­létta kyn­segin mann­eskju og handa­band með mis­munandi húð­litum.

Tjáknin eru hugsuð til að auka fjöl­breyti­leika innan tölvu­kerfa og bætast þau við gagnabanka um 3600 annarra tjákna sem stofnunin hefur hannað. Tækni­fyrir­tæki geta svo búið til eigin út­gáfur af tjáknunum fyrir sínar vörur og tæki.

Sýnir að öll kyn geta gengið með börn

Sam­kynja pör og kyn­hlut­laus tjákn voru meðal þeirra tjákna sem Unicode Consortium bætti við gagna­banka sína árið 2019 en stofnunin var gagn­rýnd fyrir að skilja trans fánann og trans táknið út undan.

Nýju tjáknunum sem sýna ó­léttan karl­mann og ó­létta kyn­segin mann­eskju í mis­munandi húð­litum er ætlað að auka fjöl­breyti­leika með því að sýna að mann­eskjur af öllum kynjum geti gengið með börn.

Þá má leiða að því líkum að tjáknin sem sýna handa­bönd manneskja af ó­líkum húð­litum sé ætlað að sýna réttinda­bar­áttu litaðs fólks stuðning.

Önnur tjákn sem fylgja með nýju upp­færslunni eru til dæmis hendur að mynda hjarta, manneskja að bíta í vörina og rif­bein í röntgen­skoðun.