Edda Halldórsdóttir listfræðingur er sýningarstjóri sýningarinnar Að utan sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum. „Á þessari sýningu eru eingöngu verk sem Jóhannes Kjarval vann á erlendri grundu, í þeim fjórum löndum þar sem hann dvaldi sem lengst og málaði hvað mest, sem eru England, Danmörk, Ítalía og Frakkland. Sýningin spannar verk frá árunum 1911-1928,“ segir Edda.

„Kjarval fór í sína fyrstu ferð til útlanda árið 1911, til London og það var mikið áhrifatímabil í lífi hans, mjög stutt samt, þrír mánuðir. Það má segja að ferðin til London hafi verið undanfari þess að hann fór í formlegt nám í Kaupmannahöfn. Hann fór til Ítalíu árið 1920 í rannsóknarferð og síðan árið 1928 fór hann til Parísar. Það er til þó nokkuð af verkum frá þessum tímum og frá þessum stöðum. Þetta eru verk sem eru innblásin af dvölinni í þessum stórborgum.“

Eins konar tæknitilraunir

Edda segir sýninguna varpa ljósi á það hversu lærður og sigldur Kjarval var. „Fyrsta utanlandsferð hans var til London og það voru mikil umskipti fyrir íslenskan sveitapilt. Hann varð fyrir miklum áhrifum og var á söfnum að skoða, skissa og teikna.

Myndir eftir Kjarval á sýningunni.

Hann ætlaði sér að verða myndlistarmaður og lagði mjög hart að sér til að komast til útlanda í nám. Í náminu í Danmörku náði hann mjög góðum tökum á teikningu. Í myndum hans frá þessum tíma sjáum við nákvæmar mannastúdíur og anatómískar teikningar sem eru eins konar tæknitilraunir.

Ferð hans til Ítalíu árið 1920 var ákveðinn liður í því að eflast sem myndlistarmaður. Þaðan eru margar mannamyndir af ítölskum konum og körlum sem urðu á vegi hans. Hann heillaðist líka af ítölskum arkitektúr og byggingum, eins og margar Ítalíumyndanna bera með sér.

Í einu rými í salnum eru síðan myndir frá Frakklandi, þetta er röð skógarmynda sem eru allar áþekkar.“

Hvorki hraun né mosi

Verkin á sýningunni eru töluvert ólík þeim verkum sem fólk á að venjast og þekkir eftir Kjarval. „Hér er hvorki hraun né mosi heldur eitthvað allt annað. Fólk myndi ekki endilega giska á að öll verkin væru eftir Kjarval,“ segir Edda. „Mörg þessara verka hafa verið sýnd, en ekki saman sem heild erlendra verka. Það var mikil rannsóknarvinna að finna þau. Hluti þeirra er úr safneign Listasafns Reykjavíkur en mikið er fengið að láni frá einstaklingum, söfnum og stofnunum.“