Marvel aðdáendur iða á skinninu eftir að stikla úr nýjustu Spider-Man myndinni var birt.

Marvel ætlar greinilega alla leið inn í Multiverse hugmyndina svokölluðu. Þá gæti vel verið að margar kvikmyndir muni snúast um þennan risa atburð þar sem margir heimar renna saman. Næsta kvikmynd um Doctor Strange mun einnig fjalla um Multiverse.

Marvel hefur kitlað áhorfendur með vísbendingum um þennan atburð eftir Wandavision og Loka þættina á streymisveitunni Disney+ en þeirra þættir sýndu heilögu tímalínuna brotna í sundur í margar greinar.

Þrír kóngulóarmenn?

Í nýjustu stiklu fyrir kvikmyndina Spider-Man: No Way Home má sjá Alfred Molina snúa aftur í hlutverki Doctor Octopus eða Dock Ock eins og hann er gjarnan kallaður. Sama persóna birtist í annarri Spider-Man mynd Sam Raimi, þar sem Tobey Maguire fór með hlutverk Peter Parker.

Kenningar hafa verið að flakka um á netinu um að Marvel muni ganga enn lengra og sýna marga kóngulóarmenn með þeim leikurum sem hafa áður túlkað hlutverkið, þ.e. Andrew Garfield og hinum fyrrnefnda Tobey Maguire.

The Ringer greinir frá því að persóna Jamie Foxx (Electro) sem birtist í kvikmynd með kóngulóarmanni Andrew Garfield, mun einnig birtast í myndinni sem ýtir undir sögusagnirnar um að þrír kóngulóarmenn muni birtast á sama skjánum.

Eins og glöggir áhorfendur tóku eflaust eftir má sjá glitta í sprengjurnar hans Green Goblin, sem leikinn var af Willem Defoe í fyrstu Spider-Man mynd Tobey Maguire. Þetta verður veisla.

Munu Tobey Maguire og Andrew Garfield sjást á skjánum með Tom Holland?