Söngkonan Guðrún Ýr Eyfjörð, eða GDRN, gefur í dag út sína aðra plötu, sem heitir einfaldlega GDRN.

„Platan var gerð af mér, Arnari Inga Ingasyni og Magnúsi Jóhanni Ragnarssyni. Ég skrifa þó alla textana sjálf en það kemur fyrir að strákarnir grípi í pennann. Á plötunni eru góðir gestir: Sigríður Thorlacius, Matthildur, Birnir og Steingrímur Teague syngja með mér í nokkrum lögum. Platan inniheldur mikið af „live elementum“ og væri kannski best að skilgreina sem popp með djass- og smá fönkáhrifum – í bland við örlítið R’n’B,“ segir Guðrún.

Sumarleg plata

Öll lögin á plötunni eru á íslensku.

„Við vildum fá smá 70’s fíling á plötuumslagið, sem Siggi Odds hannaði og Axel Sigurðarson myndaði. Það tók eitt og hálft ár að gera plötuna en við byrjuðum að semja fyrstu lögin í ágúst 2018,“ segir Guðrún.

Lögin á plötunni eru nánast öll samin að vori og sumri til.

„Þema plötunnar er eftir því. Það er eftirvænting eftir sumrinu, sumarást í loftinu og þessi lífræni hljóðheimur lifandi hljóðfæraleiks rammar þær pælingar inn.“

Fjölhæf í tónlistinni

Guðrún hefur verið í tónlist frá barnsaldri.

„Ég hef verið í tónlist nánast allt mitt líf. Ég ákvað þegar ég var þriggja ára að ég vildi læra að spila á fiðlu og byrjaði í fiðlunámi ári seinna. Ég var í fiðlunáminu í um tólf ár og ákvað svo að læra djass-söng. Ég hafði lengi fyrir það gælt við hugmyndina um að gerast söngkona en lét svo loksins verða af því og var átján ára þegar ég skráði mig í söngnámið,“ segir Guðrún sem bætti einnig við sig píanónámi eftir að hún útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík.

„Í kjölfarið fór ég svo að gefa út mitt fyrsta frumsamda efni með taktsmiðateyminu ra:tio. Fyrsta platan mín, Hvað ef, kom út í ágúst 2018. Ég er enn þá að reyna að átta mig á því hvað þeirri plötu hefur gengið vel og hversu mörg og frábær tækifæri hún hefur gefið mér. Mér finnst ferlið núna við gerð nýju plötunnar allt öðruvísi og hljómurinn líka. Ég er virkilega spennt að gefa út eitthvað nýtt og hlakka til að sjá hvernig fólk tekur í nýju plötuna.“

Spennandi tímar

Guðrún segir margt spennandi fram undan, tónleikar og skemmtileg verkefni sem fylgja plötunni.

„Það er mikilvægt að fylgja plötunni vel eftir,“ segir hún og hlær.

Hún segist fá innblástur víðs vegar frá.

„Ég fæ innblástur úr hverju sem er. Það getur verið frá fólki, úr tónlist, kvikmyndum og bókmenntum. Í rauninni hverju sem er sem hreyfir við manni,“ segir hún.

Guðrún nýtur þess að koma fram en finnur þó oft fyrir smá stressi.

„Mér finnst fátt skemmtilegra en að koma fram. Ég verð alltaf mjög stressuð en það hverfur yfirleitt um leið og ég byrja að syngja. Ég er mjög heppin að fá að vinna við mitt aðaláhugamál, ég ver nánast öllum mínum frítíma í tónlist á einn eða annan hátt,“ segir hún.