Fram­leiðslu­fyrir­tækið Join Motion Pictures hefur nú hlotið fram­leiðslu­styrk frá Kvik­mynda­mið­stöð Ís­lands fyrir nýrri kvik­mynd leik­stjórans Guð­munds Arnars Guð­munds­sonar. Fyrsta kvik­mynd hans í fullri lengd, Hjarta­steinn, sló ræki­lega í gegn hér heima. Þetta kemur fram í til­kynningu.

Nýja myndin hefur hlotið vinnu­heitið Ber­dreymi og fjallar um hóp ung­lingstráka í út­hverfi Reykja­víkur sem upp­lifa sig utan­garðs og nota of­beldi til þess að leysa sín deilu­mál. Myndin sýnir vin­áttu þeirra, bæði í sinni fegurð og harð­neskju, og hefur einnig undir­liggjandi dul­rænt þema sem út­skýrir nafnið Ber­dreymi.

Guð­mundur skrifaði hand­ritið og er það inn­blásið af ung­lings­árum hans í Reykja­vík. Stendur nú yfir leit að strákum á aldrinum 13-16 ára fyrir aðal­hlut­verk myndarinnar.

„Við fengum hátt í þúsund um­sóknir í leit okkar að réttu leikurunum fyrir Hjarta­stein og sáum þar hve mikið er um hæfi­leika­ríkt ungt fólk á Ís­landi,“ segir fram­leiðandinn Anton Máni Svans­son.

„Nú viljum við aftur bjóða öllum sem á­huga hafa og eru á aldrinum 13-16 ára til að senda inn um­sókn, hvort sem þeir hafa reynslu eða ekki. Það eina sem þarf að gera er að senda tölvu­póst sem inni­heldur skýra and­lits­mynd, nafn, aldur og hæð, með leyfi for­ráða­manns, á net­fangið [email protected]

Stefnt er á að hefja tökur á Ber­dreymi næsta sumar og hafa aðstend­endur trú á því að myndin, líkt og fyrri verk Guð­mundar, muni vekja mikla at­hygli bæði hér heima og fyrir utan land­steinanna. „Þetta er raun­sæ og gróf en á sama tíma hug­ljúf saga um unga stráka sem reyna að finna sinn far­veg í erfiðu um­hverfi,“ segir Guð­mundur Arnar.