Á sýningunni var mikið um flæðandi mittislausa ökklasíða kjóla með flegnu v-hálsmáli og blómaskreytingum. Victoria sagðist leggja mikla áherslu á kjóla í vorlínunni 2020. Hún segir að sér líki við pífur og fellingar sem dansa við hverja hreyfingu. Victoria Beckham hefur alla tíð lagt áherslu á það í fatalínum sínum að fötin séu stílhrein og klæðileg og praktísk fyrir konurnar sem nota fötin.

Mikið var um einlita flæðandi kjóla á sýningunni í sterkum litum en ­Victoria var áður þekkt fyrir að klæðast eingöngu svörtu.

Victoria segir að áður fyrr hafi hún aðeins notað svört föt og hún skildi ekki þegar fólki sagðist ekki líka það. En núna kýs hún að tjá sig með því að nota liti. „Litir eru svo upplífgandi,“ sagði hún í viðtali við erlent tískutímarit.

Sýningin vakti athygli og hefur Victoria fengið mikið lof fyrir nýjustu fatalínuna sína.

Á sýningunni á sunnudaginn var mikið einnig mikið um einlita kjóla og blússur í sterkum litum, grænum, fjólubláum og gulum. Þar mátti einnig sjá stílhreinar brúntóna dragtir í snyrtilegum einföldum sniðum sem minntu svolítið á 8. áratuginn í bland við buxur og skyrtur í björtum litum tónaðar niður með brúnum frakka eða bleiserjakka.

Victoria leggur áherslu á að hanna föt með notagildi. Hér blandar hún saman sterkum litum og bláum buxum og gulri skyrtu við brúnan frakka.