Árið 2019 var í fyrsta skipti ein stofa Bessastaða helguð íslenskri hönnun og húsgagnagerð. Þetta er því í annað sinn sem slík innsetning fer fram. Íva Rut Viðarsdóttir, innanhússarkitekt, valdi húsgögnin og munina úr þeim tillögum sem bárust frá hönnuðum og framleiðendum og skipulagði rýmið. Við valið var haft í huga að sýna þá miklu fjölbreytni sem einkennir íslenskt handverk og hönnun, auk þess sem litið var til sjálfbærni og hringrásarhugsunar. Áformað er að þessi nýja innsetning vari í þrjú ár.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Samstarfið við forseta Íslands hefur verið ánægjulegt og einkennst af áhuga og velvilja. Það á að vera sjálfsagt mál að íslensk hönnun og húsgögn sjáist í öllum opinberum byggingum hér á landi og þá ekki síst þar sem almenningur og erlendir gestir fara um. Við eigum að vera stolt af því sem er hannað og framleitt hér á landi og hvetja til frekari verka á því sviði. Í auknum mæli er horft til umhverfisverndar og kolefnisfótspors og þar standa íslenskir framleiðendur framarlega.“

Í tilefni innsetningarinnar voru eftirtaldir mættir eins og sjá á ofangreindri mynd, Eyjólfur Eyjólfsson hjá Axis, Árni Grétarsson hjá GÁ húsgögnum, Geir Hilmar Oddgeirsson hjá Grein, Ninja Ómarsdóttir hjá Brákarey, Brynjar Sveinbjörnsson hjá Steinkompanýinu, Steve Christer hjá Studio Granda, Árni Sigurjónsson, formaður SI, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Stefán Sigurðsson hjá Fólk Reykjavík, Magnús J. Magnússon hjá Sólóhúsgögnum, Örn Þór Halldórsson hjá Random Ark, Birkir Snær Einarsson hjá Sólóhúsgögnum, Ástríður Birna Árnadóttir hjá Arkitýpa, Aðalheiður Dóra Þórólfsdóttir hjá Zetia og Zenus og Ásgeir Freyr Ásgeirsson hjá Zetia og Zenus.

Gestir Bessastaða geta nálgast upplýsingar á íslensku og ensku um húsgögnin og munina með því að skanna inn QR-kóða sem vísar á þessa vefslóð hér.