Japaninn Hideo Kojima, einn þekktasti og virtasti tölvuleikjahönnuður heims, er að markaðssetja línu af gleraugum í samstarfi við franska tískuhönnuðinn Jean-François Rey. Þetta tilkynnti hann á Twitter-síðu sinni á mánudag.

Kojima sagði að gleraugun væru byggð á hugmynd hans. Hann er sjálfur vanur að nota sólgleraugu með styrk en þá þarf hann alltaf að hafa með sér venjuleg gleraugu líka svo hann geti séð eftir myrkur. Hann segir að það sé ekki vandamál ef fólk hefur bakpoka, en á ströndinni eða ferðalagi erlendis sé fólk kannski ekki með einn slíkan. Þess vegna bað hann um gleraugu sem virkuðu bæði sem sólgleraugu og venjuleg gleraugu.

Gleraugun henta þeim sem sjá illa og vilja geta notað eitt gleraugnapar í öllum aðstæðum.

Ekki fyrsta samstarf hönnuðanna

Útlit gleraugnanna er innblásið af tölvuleik eftir Hideo Kojima sem heitir Death Stranding, en endurbætt útgáfa af leiknum var gefin út fyrir skömmu. Þetta eru ekki fyrstu tískuvörurnar sem draga innblástur frá leiknum, en áður hafa komið jakkar, peysur, töskur og fleira sem var framleitt í samstarfi við tískuhönnuði.

Þetta er líka ekki í fyrsta sinn sem Kojima vinnur með hönnuðinum franska, sem sérhæfir sig í óhefðbundnum gleraugum. Persónur í öðrum leik eftir Kojima, Metal Gear Solid 5: The Phantom Pain, notuðu gleraugu sem voru hönnuð af Rey og Kojima hefur sjálfur oft komið fram opinberlega með gleraugu eftir hönnuðinn.

Þessi nýju gleraugu eru svo sannarlega bæði í anda Kojima og Rey, því þau eru mjög sérstök í útliti.

Fjórar ólíkar útgáfur í boði

Um fjögur ólík gleraugnapör er að ræða og þau koma öll í mismunandi litum nema eitt, sem er bara til í svörtu og fæst einungis í pakka með öðru pari, sem er nokkurs konar gríma.

HKxFJ01 gleraugun hafa bæði glær og dökk gler og virka því bæði sem venjuleg gleraugu og sólgleraugu.

Fyrsta útgáfan heitir HKxFJ01 og það eru bæði venjuleg gleraugu og sólgleraugu. Þau hafa glær og hringlaga gler ásamt dökkum kassalaga glerjum sem er hægt að færa til hliðar eða ofan á ólituðu glerin.

HKxJF02 eru með tvö glær hringlaga gler og þeim fylgja dökk gler sem er hægt að smella ofan á þau glæru.

Útgáfa númer tvö heitir HKxJF02 og það eru gleraugu með tvö glær hringlaga gler og framúrstefnulegt útlit, en frekar hefðbundna umgjörð. Þeim fylgja dökk gler sem er hægt að smella ofan á þau glæru.

HKxJF03 eru einungis seld með svokallaðri Ludens-grímu, sem er þrívíddarprentuð gleraugnagríma.

Þriðja útgáfan, HKxJF03, eru svo frekar einföld gleraugu með hringlaga gler en hlífar kringum glerin. Þau eru einungis seld með svokallaðri Ludens-grímu, sem er þrívíddarprentuð gleraugnagríma sem kemur beint úr Death Stranding, en gríman er innblásin af útliti Ludens, sem er nokkurs konar lukkudýr framleiðslufyrirtækis Kojima. Gríman er með stillanlega nefpúfa og það er hægt að festa gler með styrk eða sólgleraugu við hana. Þessi gleraugu koma í takmörkuðu magni.

Ludens-gríman er með stillanlega nefpúfa og það er hægt að festa gler með styrk eða sólgleraugu við hana. Hún fæst aðeins í takmörkuðu magni.

Það kemur hvergi fram hvað gleraugun munu kosta, en það er hægt að forpanta til að reyna að tryggja sér eintök og þau eiga að vera afgreidd í mars á næsta ári. ■