Tökur hófust í síðustu viku á nýrri Downton Abbey fram­halds­mynd sem gerð er eftir hinni geysi vin­sælu sjón­varps­þátta­röð sem sýnd var á árunum 2010 til 2015.

Á­ætlað er að myndin muni verða frum­sýnd 22. desember næst­komandi og munu flest af þekktustu and­litum upp­runa­legu seríunnar endur­taka hlut­verk sín, svo sem Hugh Bonn­evil­le, Michelle Dockery og stór­leik­konan Maggi­e Smith. Auk þess munu ýmsir nýir leikarar bætast við hópinn, þar á meðal Hugh Dan­cy, Laura Hadd­ock, Nat­hali­e Baye og Dominic West sem mun leika Karl Breta­prins í 5. og 6. seríu sjón­varps­þáttanna The Crown.

Juli­an Fellowes, höfundur upp­runa­legu þáttanna, skrifar hand­ritið að myndinni og Simon Curtis sér um leik­stjórn.

„Eftir mjög krefjandi ár þar sem svo mörg okkar hafa verið að­skilin frá fjöl­skyldu og vinum er hug­hreystandi til­hugsun um að betri tímar séu fram undan og að næstu jól muni við fá að endur­vekja kynni okkar af ást­sælu sögu­hetjum Downton Abbey,“ segir Gareth Neame, fram­leiðandi myndarinnar.

Síðasta Downton Abbey mynd, sem kom út árið 2019, græddi 194,6 milljónir Banda­ríkja­dala al­þjóð­lega þrátt fyrir að hafa að­eins kostað um 20 milljónir í fram­leiðslu. Því má gera ráð fyrir að eftir­væntingin sé mikil eftir fram­haldinu.