Ný ævisaga um Elísabetu Bretadrottningu mun varpa ljósi á hennar síðustu daga, en hún lést 8. september síðastliðinn, eins og alheimur tók eflaust eftir.
Drottningin á að hafa sagt þjónustukonu sinni að hún væri staðráðin í að halda daglegu starfi sínu áfram án truflana eftir að eiginmaður hennar, Filippus prins, lést. En hann lést í apríl 2021, um einu og hálfu ári áður en Elísabet lést.
Vinnan á að hafa hjálpað Elísabetu að takast á við dauða Filippusar, en hún er sögð ekki hafa viljað sýna neina sjálfsvorkun. „Maðurinn minn hefði örugglega ekki samþykkt það,“ á hún að hafa sagt.
The Sun segir hana hafa lagt svo hart að sér í vinnunni að skyndilega hafi hún orðið veik og henni ráðlagt af læknum að hvíla sig. Gyles Brandreth höfundur bókarinnar Elizabeth: An Intimate Portrait greinir frá þessu í bókinni.
Brandreth segir sjónvarpið hafa haldið Elísabetu gangandi. Þá var sjónvarpsþátturinn Line of Duty í sérstöku uppáhaldi, en hún á stundum að hafa átt erfitt með að halda í við söguþráðinn.
Í bókinni kemur fram að eitt af síðustu samtölum drottningarinnar hafi verið við Clive Cox, einn af hennar uppáhalds hestaþjálfurum hennar, en samtal þeirra átti sér stað tveimur dögum áður en hún lést.
„Við ræddum um folöldin, hvernig keppnin gæti farið, hvernig öðrum hesti hennar gekk í hesthúsinu mínu og um ýmislegt fleira. Hún var enn brött þegar ég talaði við hana,“ sagði Cox við The Sun.
Brandreth segir í bókinni að drottningin hafi alltaf vitað að hennar tími hafi verið takmarkaður. „Hún tók þessu af allri þeirri góðu náð sem þú mátt búast við.
Hittust ekki vikum saman
Í bókinni kemur einnig fram að Elísabet og Filippus hafi oft og tíðum ekki séð hvort annað vikum saman eftir að Filippus lét af störfum árið 2017. Elísabet og Filippus höfðu verið gift í 73 ár þegar hann lést.
Það stoppaði drottninguna ekki í að sýna honum stuðning þegar hann varð veikur, stuttu áður en hann lést. Brandreth segir drottninguna hafa varla farið frá hans hlið síðustu vikur lífs hans.
„Lífið heldur áfram, það verður að gera það,“ á drottningin að hafa sagt skömmu eftir að Filippus lést.