Ný ævi­saga um Elísa­betu Breta­drottningu mun varpa ljósi á hennar síðustu daga, en hún lést 8. septem­ber síðast­liðinn, eins og al­heimur tók ef­laust eftir.

Drottningin á að hafa sagt þjónustu­konu sinni að hún væri stað­ráðin í að halda dag­legu starfi sínu á­fram án truflana eftir að eigin­maður hennar, Filippus prins, lést. En hann lést í apríl 2021, um einu og hálfu ári áður en Elísa­bet lést.

Vinnan á að hafa hjálpað Elísa­betu að takast á við dauða Filippusar, en hún er sögð ekki hafa viljað sýna neina sjálfs­vor­kun. „Maðurinn minn hefði örugg­lega ekki sam­þykkt það,“ á hún að hafa sagt.

The Sun segir hana hafa lagt svo hart að sér í vinnunni að skyndi­lega hafi hún orðið veik og henni ráð­lagt af læknum að hvíla sig. Gy­les Brand­reth höfundur bókarinnar Eliza­beth: An Intimate Portrait greinir frá þessu í bókinni.

Brand­reth segir sjón­varpið hafa haldið Elísa­betu gangandi. Þá var sjón­varps­þátturinn Line of Duty í sér­stöku upp­á­haldi, en hún á stundum að hafa átt erfitt með að halda í við sögu­þráðinn.

Í bókinni kemur fram að eitt af síðustu sam­tölum drottningarinnar hafi verið við Cli­ve Cox, einn af hennar upp­á­halds ­hesta­þjálfurum hennar, en sam­tal þeirra átti sér stað tveimur dögum áður en hún lést.

„Við ræddum um fol­öldin, hvernig keppnin gæti farið, hvernig öðrum hesti hennar gekk í hest­húsinu mínu og um ýmis­legt fleira. Hún var enn brött þegar ég talaði við hana,“ sagði Cox við The Sun.

Brand­reth segir í bókinni að drottningin hafi alltaf vitað að hennar tími hafi verið tak­markaður. „Hún tók þessu af allri þeirri góðu náð sem þú mátt búast við.

Hittust ekki vikum saman

Í bókinni kemur einnig fram að Elísa­bet og Filippus hafi oft og tíðum ekki séð hvort annað vikum saman eftir að Filippus lét af störfum árið 2017. Elísa­bet og Filippus höfðu verið gift í 73 ár þegar hann lést.

Það stoppaði drottninguna ekki í að sýna honum stuðning þegar hann varð veikur, stuttu áður en hann lést. Brand­reth segir drottninguna hafa varla farið frá hans hlið síðustu vikur lífs hans.

„Lífið heldur á­fram, það verður að gera það,“ á drottningin að hafa sagt skömmu eftir að Filippus lést.